Handbolti

Karabatic meiddur og missir af fyrsta stórmótinu síðan 2002

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Karabatic hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili.
Nikola Karabatic hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili. getty/Catherine Steenkeste

Franski handboltamaðurinn Nikola Karabatic hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili. Hann sleit krossband í hné í leik Paris Saint-Germain og Ivry í frönsku úrvalsdeildinni um helgina.

Ljóst er að Karabatic leikur ekki með franska landsliðinu á HM í Egyptalandi í janúar á næsta ári. Það verður fyrsta stórmótið sem Karabatic missir af síðan 2002.

Frá 2003 hefur Karabatic tekið þátt á öllum 22 stórmótunum í handbolta. Hann hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari með Frökkum, þrisvar sinnum Evrópumeistari og tvisvar sinnum Ólympíumeistari.

Karabatic, sem er 36 ára, hefur einnig unnið fjölda titla með þeim félagsliðum sem hann hefur leikið með. Hann hefur verið hjá PSG frá 2015.

Frakkar eru í riðli með Norðmönnum, Austurríkismönnum og liði frá Norður-Ameríku í riðli á HM í Egyptalandi. Það verður fyrsta stórmót franska liðsins undir stjórn Guillaumes Gille sem tók við því af Didier Dinart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×