Körfubolti

Anthony Davis mun framlengja við Lakers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davis fagnar sigurkörfu sinni í einum af fjórum sigurleikjum Lakers gegn Denver Nuggets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. 
Davis fagnar sigurkörfu sinni í einum af fjórum sigurleikjum Lakers gegn Denver Nuggets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.  Kevin C. Cox/Getty Images

Anthony Davis, önnur af stórstjörnum NBA-meistara Los Angeles Lakers, mun framlengja samning sinn við liðið nú á næstu vikum. The Athletic eru meðal þeirra sem hafa fjallað um málið.

Davis gekk í raðir Lakers frá New Orleans Pelicans eins og frægt er orðið síðasta sumar. Hann gekk til liðs við Lakers-lið sem innihélt LeBron James og átti enn ein stjórstjarnan að vera á leiðinni. Þriðja stórstjarnan kom aldrei en það kom ekki að sök.

Davis og Lebron fóru fyrir Lakers er félagið vann sinn 17. titil á ferlinum. Hinn magnaði LeBron vann þar með sinn fjórða á meðan hinn 27 ára gamli Davis vann sinn fyrsta NBA-meistaratitil. Þó það sé átta ára aldursmunur á þeim félögum þá hafa þeir náð einstaklega vel saman og spilar það – ásamt því að landa meistaratitlinum – eflaust inn í ákvörðun Davis að vera áfram í Englaborginni.

Fari svo að þessir tveir fái aðra stórstjörnu til Lakers er ljóst að liðið er til alls líklegt að vinna tvö ár í röð.AP Photo/Mark J. Terrill

Davis lék frábærlega í úrslitakeppninni, var með 27.7 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 9.7 fráköst og gefa 3.5 stoðsendingar. Þá setti hann niður stórar körfur á mikilvægum augnablikum ásamt því að taka leiki yfir þegar Lakers þurfti á því að halda.

Samningur Davis er þannig að hann getur keypt sig út úr honum og samið við hvaða lið sem er nú á næstu vikum. Var talið að leikmaðurinn myndi mögulega gera það og sjá hvaða lið myndi bjóða honum stærsta samninginn. Nú herma fregnir hins vegar að Davis muni nýta sér ákvæði og segja upp samningnum en semja svo strax í kjölfarið við meistarana.

Nokkrir valmöguleikar eru í boði, fara þeir allir eftir hversu langan samning Lakers og Davis gera. Það er allavega ljóst að hann mun eiga fyrir salti í grautinn á næstu árum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.