Körfubolti

Mun ekki leika með Dresden Titans í vetur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingvi Þór hleður hér í skot gegn KR. Mögulega mun hann leika í treyju Grindavíkur í vetur.
Ingvi Þór hleður hér í skot gegn KR. Mögulega mun hann leika í treyju Grindavíkur í vetur. Vísir/Bára

Grindvíkingurinn Ingvi Þór Guðmundsson mun ekki leika með körfuboltaliðinu Dresden Titans frá Þýskalandi í vetur. Þetta staðfesti Ingvi í viðtali við Karfan.is fyrr í dag.

Hann segir óljóst hvað hann muni taka sér fyrir hendur í vetur. Á síðustu leiktíð lék hann með Grindavík í Domino´s deild karla. Skoraði hann að meðaltali 14 stig í leik í deildinni ásamt því að taka fimm fráköst og gefa fimm stoðsendingar.

Til stóð að Ingvi Þór myndi flytja til Þýskalands – líkt og bróðir sinn Jón Axel Guðmundsson sem leikur með Skyliners Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni – og spila með Dresden. Liðið leikur í C-deild þýska körfuboltans. Hún er svæðisskipt og því eru í raun tvær deildir.

Hinn 22 ára gamli Ingvi Þór hefur áður spilað erlendis en hann spilaði með St. Louis háskólanum í Bandaríkjunum um skeið árið 2018.

Það er ljóst að mörg lið í Domino´s deild karla myndu falast eftir kröftum Ingva Þórs ákveði hann að spila hér á landi í vetur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.