Skoðun

Borgarlínan er samfélagslega arðbær

Lilja Guðríður Karlsdóttir skrifar

Sameiginlegir sjóðir skattgreiðenda eru takmörkuð auðlind og því mikilvægt fyrir stjórnvöld að forgangsraða verkefnum. Í efnahagslegri greiningu OECD á Íslandi árið 2019 var ein helsta ráðleggingin til að bæta opinberar fjárfestingar sú að framkvæma ítarlega félagshagfræðilega greiningu (arðsemismat) áður en ráðist er í stór innviðaverkefni. Nú er slíkri greiningu á fyrsta áfanga Borgarlínunnar lokið en samkvæmt henni mun verkefnið skila samfélagslegum ábata sem nemur 26 milljörðum króna umfram kostnað. Innri arðsemi er metin rétt tæp 7% að raunvirði.

Hvað er félagshagfræðileg greining?

Félagshagfræðileg greining (en. Socioeconomic analysis) metur kostnað og ábata verkefnis og lýsir þeim áhrifum sem ólíkir aðilar eða þættir verða fyrir, t.d. notendur, yfirvöld, helstu ferðamátar og umhverfið. Þannig næst heildrænt og samanburðarhæft mat á arðsemi verkefnis sem skoðað er: Ef ábatinn er meiri en kostnaðurinn þá er almennt talið fýsilegt að framkvæma verkefnið.

Þeir þættir sem metnir voru í félagshagfræðilegri greiningu á Borgarlínunni voru stofnkostnaður, rekstrarkostnaður, tekjur, ferðatímasparnaður, ferðakostnaður, slysakostnaður, CO2 útblástur, mengun og hávaði. Greiningin var unnin af verkfræðistofunni Mannviti og dönsku ráðgjafastofunni COWI samkvæmt leiðbeiningum Evrópusambandsins en reiknilíkanið sem notast var við er þróað af danska samgönguráðuneytinu.

26 milljarða samfélagslegur ábati

Helstu niðurstöður félagshagfræðilegu greiningarinnar á fyrsta áfanga Borgarlínu er að verkefnið er samfélagslega arðbært: Samfélagslegur ábati verkefnisins er metinn tæpir 26 milljarðar króna að núvirði umfram stofn- og rekstrarkostnað á því 30 ára tímabili sem greiningin nær yfir. Innri arðsemi verkefnisins er metin rétt tæp 7%.

Þar sem verkefnið er ennþá á frumdragastigi, og því enn töluverð óvissa í forsendum, var næmnigreining unnin á þónokkrum þáttum í þeim tilgangi að skoða hvaða áhrif það hefur á niðurstöður félagshagfræðilegu greiningarinnar ef tilteknar forsendur breytast eftir því sem verkefninu vindur fram, t.d. ef rekstrarkostnaður myndi hækka um helming, ef stofnkostnaður myndi hækka um fjórðung eða ef árleg umferðaraukning á höfuðborgarsvæðinu yrði meiri eða minni en gert var ráð fyrir. Niðurstöður næmnigreiningarinnar voru skýrar og sýndu að verkefnið hélst samfélagslega arðsamt þrátt fyrir breytingar á öllum þáttum næmnigreiningarinnar.

Jákvæðar niðurstöður fyrir samfélag og umhverfi Félagshagfræðilega greiningin gefur sterklega til kynna að Borgarlínan muni reynast jákvæð fyrir bæði samfélagið og umhverfið sem er mikið ánægjuefni. Stefnt er að því að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjast á þarnæsta ári og ég hvet alla áhugasama um að kynna sér verkefnið nánar á www.borgarlinan.is en þar er meðal annars að finna félagshagfræðilegu greininguna í heild sinni ásamt öðru ítarefni.

Höfundur er samgönguverkfræðingur á Verkefnastofu Borgarlínunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×