Viðskipti innlent

Vonar að lyfjafyrirtækin hætti að einblína á gróða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Stefánsson er bjartsýnn á að hægt verði að kveða kórónuveiruna í kútinn fyrir lok næsta árs.
Kári Stefánsson er bjartsýnn á að hægt verði að kveða kórónuveiruna í kútinn fyrir lok næsta árs. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur ástæðu til að búast við því að bóluefni gegn kórónuveirunni verði komið á markað í byrjun næsta árs. Hann vonar að samtakamáttur lyfjaframleiðenda í leit að bóluefni skili sér til framtíðar á þann hátt að fyrirtæki finni til samfélagslegrar skyldu en hætti að reyna að græða á tá og fingri.

Þetta kom fram í máli Kára í Bítinu á Bylgjunni á föstudag. Hann var spurður út í ólíkar fréttir af því hvenær bóluefnis sé að vænta.

„Þetta er ekkert misvísandi í sjálfu sér. Menn eru bara komnir mismunandi langt. Það eru fyrirtæki sem eru með þetta á lokastigum þróunar og segjast geta komið með bóluefni á markað áður en árið er búið. Aðrir segjast ekki verða komnir með þetta fyrr en um mitt næsta ár. Svo deila menn um það hversu fljótt megi búa til nægilega mikið bóluefni til að það nýtist heiminum öllum,“ segir Kári.

Hversu miklar aukaverkanir má sætta sig við?

„Ég held að það sé engin sjúkleg bjartsýni að gera ráð fyrir að það verði komið bóluefni á markað í byrjun næsta árs. Og það verði mögulegt að kveða þessa veiru í kútinn fyrir lok næsta árs.“

Bóluefni eru venjulega mörg ár í þróun en í ljósi heimsfaraldursins, sem kórónuveiran er, er allt kapp lagt á að finna bóluefni sem fyrst. Kári var spurður út í áhættuna sem þessari hröðu vinnu fylgir.

Hlusta má á viðtalið í heild hér að neðan.

„Það er einhver áhætta en hún er ekki stórkostleg. Það er verið að flýta sér. Það er hægt að kanna virknina tiltölulega hratt. Hversu vel þessum bólefnum tekst að koma í veg fyrir sýkingu. Það tekur lengri tíma að kanna aukaverkanir og sérstaklega fágætar aukaverkanir sem geta verið alvarlegar.“

Þá sé spurningin, þegar maður horfist í augu við heimsfaraldur sem þennan, hversu miklar aukaverkanir hægt sé að sætta sig við til að ná utan um faraldurinn.

Deila öllum upplýsingum

„Því að faraldurinn er það skaðlegur, erfiður, veldur það miklu tjóni að það eru líkur á því að menn myndu sætta sig við þó nokkrar aukaverkanir ef hægt er að nota þetta sem bóluefni til að hemja faraldurinn.“

Vísindamenn við háskóla, lyfjafyrirtæki og aðilar um allan heim hafa lagst á eitt við rannsóknir á kórónuveirunni. Deilt upplýsingum hver með öðrum til að hjálpast að við í faraldrinum. Þar vinna samkeppnisaðilar saman. Kári var spurður hvort hann teldi slíkt samstarf komið til að vera.

„Það sem kemur til með að ráða úrslitum þar er hvernig við sem samfélag tökum á þessu. Það er kominn tími til að setja þrýsting á þennan iðnað þannig að hann leggi meiri áherslu á samfélagslega skyldur sínar en minni áherslu á að græða á tá og fingri á lasleika fólks.“

Íslensk erfðagreining deili sínum niðurstöðum úr rannsóknum og upplýsingum með samkeppnisaðilum, í raun öllum.

Staðið okkur nokkuð vel

„Við deilum þessu með öllum heiminum. Við birtum okkar niðurstöður eins hratt og við getum. Svo það nýtist ekki bara fyrirtækjum um allan heim heldur líka háskólum sem eru að vinna í rannsóknum á faraldrinum.“

Kári var beðinn um að leggja mat á það hvernig brugðist hefði verið við faraldrinum hér á Íslandi, frá því hann kom upp snemma árs.

Grímur eru notaðar í töluverðum mæli í menntaskólum þessa dagana.Vísir/Vilhelm

„Ég held við höfum staðið okkur nokkuð vel. Það eru ekki stórkostlegar breytingar sem ég myndi gera. Þegar horft er til baka, sérstaklega í fyrstu bylgjunni, held ég að við höfum tekið réttu skrefin. Það má deila meira um það sem hefur gerst síðan. Það er skemmra síðan það gerðist og tíminn kannski ekki alveg búinn að vega og meta eins og hann er búinn að vega og meta fyrstu bylgjuna.“

Unnið með íslenskt mótefni í Kanada

Í vetur var tappað blóði af nokkrum Íslendingum sem höfðu verið veikst af Covid og þóttu vera með mikið af mótefni. Kári segir að efninu hafi verið flogið til vesturstrandar Kanada þar sem búið sé að vinna með það linnulaust síðan.

„Það er búið að vera að nota þetta blóð til þess að reyna að búa til læknandi mótefni,“ segir Kári.

„Líkaminn í langflestum tilfellum læknar sig af veirunni með því að mynda mótefni gegn henni. Þannig að það er búið að sýna fram á af náttúrunni að svona mótefni reynast vel og nú var ráðist í það víða um heim af alls konar aðilum í háskólum og fyrirtækjum að reyna að búa til eftirmynd af aðferðinni sem líkaminn notar til þess að lækna sig af þessari leiðindaveiru.“

Vinnan sé á fleygiferð í Kanada.

„Við áttum einmitt símafund með þeim í gær þar sem var verið að útlista fyrir okkur hvernig gengi þar og svo fórum við í gegnum þá vinnu sem við höfum verið að vinna hér upp á síðkastið þannig að þetta er allt á leiðinni í rétta átt.“

Helmingur smitaðra einkennalaus

Tæplega milljón manns um heim hafa fallið fyrir kórónuveirunni.

„Þeir sem að hafa fallið fyrir þessari pest hafa allflestir verið lasnir fyrir. Þegar veiran leggst á veikan og aldraðan líkama á hann erfitt með að bregðast við því.

Það eru alls konar kenningar í gangi. Til dæmi að ónæmisvarið sem læknar líkamann getur verið of sterkt, valdið skemmdum í lungu og hjarta. Það er ein leið sem sjúkdómurinn getur farið,“ segir Kári.

Mikill fjöldi sýna hefur verið tekinn undanfarna daga. Nokkrir tugir smita hafa greinst hvern dag.Vísir/Vilhelm

Ekkert bendi til þess að veiran stökkbreytist í hverri bylgju af faraldrinum. Veiran einfaldlega laumi sér í gegnum samfélagið og svo spretti upp smit.

„Það má ekki gleymast að um það bil helmingur þeirra sem sýkjast eru einkennalausir þannig að ef þú veltir fyrir þér líkunum af því að veiran berist frá einum manni til annars, til þriðja og til fjórða, án þess að við verðum vör við það þá eru líkurnar á því einn á móti sextán sem eru alls ekkert hverfandi líkur. Þannig að hún getur smokrað sér út um allt í samfélaginu um tíma án þess að við verðum vör við það, svo allt í einu sprettur þetta upp.“

Mikilvægt að hlæja

Þá spurði Heimir Karlsson, þáttastjórnandi Bítisins, út í tilfelli sem hann hefði heyrt af að ungt fólk hefði fallið í yfirlið vegna grímunotkunar. Kári skellti upp úr.

„Mér finnst þetta í besta falli dálítið hlægilegt. Ef þú nærð ekki nágu miklu súrefni með grímu þá tekurðu hana bara af þér. Þú manst kannski eftir því í gamla daga þegar þú varst að keppa við vini þína hve lengi þú gætir verið lengi í kafi. Ef þú getur ekki andað lengur með grímu þá tekurðu hana af hvað svo sem yfirvöld segja,“ sagði Kári og minnti á mikilvægi þess að hlæja.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×