Körfubolti

Lykilmaður Snæfells í sóttkví en liðið spilar | Vill að KKÍ endurskoði málið

Sindri Sverrisson skrifar
Smit hefur greinst í Stykkishólmi.
Smit hefur greinst í Stykkishólmi.

Vegna kórónuveirusmits í Stykkishólmi sóttist Snæfell eftir því að leik liðsins við Fjölni á morgun, í Dominos-deild kvenna í körfubolta, yrði frestað. Reglur KKÍ eru hins vegar skýrar og mun leikurinn fara fram.

Einn lykilleikmaður í Snæfellsliðinu er í sóttkví vegna smits sem kom upp í Stykkishólmi, og sömuleiðis er leikmaður karlaliðsins, sem byrjar tímabil sitt í næstefstu deild 2. október, í sóttkví.

Jón Þór Eyþórsson, formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells, segir að liðið muni að óbreyttu mæta til leiks í Grafarvogi á morgun.

„Við höfum farið fram á frestum en fengum neitun. En ég tel að það þurfi að endurskoða miðað við stöðuna í bæjarfélaginu núna,“ sagði Jón Þór við Vísi.

„Við viljum gæta fyllsta öryggis, og höfum gert það. En eins og staðan er núna þá mætum við í leikinn á morgun.“

Skýrar reglur settar í sumar

Í sérstakri reglugerð KKÍ um ráðstafanir vegna heimsfaraldursins segir að leikjum verði ekki frestað nema að þrír leikmenn, af þeim sjö sem mest hafa spilað fyrir viðkomandi lið, sæti einangrun eða sóttkví. Þar sem Snæfell er aðeins með einn leikmann í sóttkví, eins og staðan er núna, fer leikurinn við Fjölni því fram.

„Við settum skýrar reglur í sumar um það hvernig skuli haga málum þegar leikmaður eða leikmenn eru í sóttkví. Það hefur ekki verið krafa félaganna að slaufa keppnistímabilinu og þess vegna setti stjórnin ákveðna reglugerð um þessi mál, enda er því miður ljóst að við þurfum að fást við þetta í vetur,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×