Golf

Guðrún Brá á undir pari í Prag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er að spila í Evrópu þessa dagana.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er að spila í Evrópu þessa dagana. Mynd/GSÍmyndir/SETH

Keiliskonan Guðrún Brá Björgvinsdóttir er ofarlega eftir fyrsta daginn á Amundi Czech Ladies Challenge mótinu sem fram fer í Prag í Tékklandi.

Amundi Czech Ladies Challenge mótið er hluti af LET Access mótaröðinni sem er í öðrum styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék fyrsta hringinn á 71 höggi eða einu höggi undir pari. Hún er eins og er í áttunda sæti.

Guðrún Brá fékk þrjá fugla á hringnum. Guðrún Brá fékk skolla á annarri og níundu holu en fékk fugla á tveimur holum í röð á fyrri níu (fjórðu og fimmtu) og svo á þeirri þrettándu.

Guðrún Brá er fjórum höggum á eftir hinni slóvensku Pia Babnik sem er í efsta sætinu. Finninn Tiia Koivisto og Svíinn Sarah Nilsson eru báðar á fjórum höggum undir pari.

Guðrún Brá náði sínum besta árangri á þessari mótaröð á Flumserberg mótinu sem fram fór í byrjun september. Þar endaði hún í 14. sæti.

Keppnishaldið á LET Access mótaröðinni hefur farið mikið úr skorðum á þessu ári vegna Covid-19. Guðrún Brá hefur leikið á einu móti á þessu ári á þessari mótaröð og er hún í 13. sæti á stigalistanum.

Dagana 23.-25. september mun Guðrún Brá keppa á ný á LET Access mótaröðinni á Lavaux Ladies Open sem fram fer í Sviss.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.