Handbolti

Stefán: Allt ömurlegt samkvæmt sérfræðingum

Benedikt Grétarsson skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. VÍSIR/HAG

Stefán Arnarson, þjálfari Fram var sáttur við nauman sigur gegn HK. Fyrir leik hafa vafalaust flestir „spekingar“ spáð Fram öruggum sigri en Stefán blæs á slíkt tal.

„Þetta er bara ekki þannig. Þetta er mjög jöfn deild og fyrstu leikirnir eru alltaf erfiðir. Það breytir engu hvernig gengi liðum er spáð fyrir mót og það sást kannski vel í gær hjá körlunum þegar nýliðarnir voru næstum búnir að vinna tvö hörkulið. Við erum fyrst og fremst ánægð með þessi tvö stig sem við fengum.“

Fram lék ekki vel gegn KA/Þór fyrir skömmu og umræðan eftir þann leik var ekkert að fara sérstaklega í okkar mann.

„Mér finnst þetta alveg magnað. Við töpuðum fyrir KA/Þór en þá höfðum við ekki tapað handboltaleik síðan í september 2019. Svo töpum við leik og þá er allt í einu allt orðið ömurlegt samkvæmt ykkur sérfræðingunum. Það var bara gott að vinna hérna í kvöld.“

Hvað gladdi Stefán helst?

„Ég er ánægðastur með varnarleikinn í fyrri hálfleik. Við fáum á okkur tvö mörk fyrsta korterið en sömuleiðis klikkum við á fjölmörgum dauðafærum. Við hefðum átt að vera með stærri forystu í hálfleik en svo er HK bara grimmari og betri en við í seinni hálfleik. Ég þarf bara aðeins að skoða þetta en við náðum að sigla þessu heim,“ sagði Stefán og bætti við,

„Markvarslan var ekki góð heilt yfir en Katrín tók þrjá frábæra bolta hérna undir lokin og sennilega var það hennar frammistaða sem skilaði okkur þessum tveimur stigum,“ sagði Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×