Umfjöllun og viðtöl: Aftur­elding - Þór 24-22 | Á tæpasta vaði gegn nýliðunum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Úr leik hjá Aftureldingu.
Úr leik hjá Aftureldingu. vísir/Bára

Afturelding vann tveggja marka sigur á Þór Ak. í fyrstu umferð Olís-deildar karla í Mosfellsbæ í kvöld. Lokatölur voru 24-22 og því fyrsti sigur Aftureldingar í hús.

Fyrri hálfleikur byrjaði hægt og kom fyrsta markið eftir 3. mínútur en það voru nýliðar Olís deildarinnar, Þór, sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Þórsarar voru yfir bróðurpart fyrri hálfleiks og leiddu með einu til tveimur mörkum og kom til að mynda kafli hjá Aftureldingu þar sem þeir skoruðu ekki í u.þ.b. sjö mínútur. Gunnar Magnússon tók þá leikhlé og stappaði stálinu í sína menn og náðu Afturelding að jafna leikinn. Hálfleikstölur voru 11-11.

Afturelding komu ákveðnari í seinni hálfleik og komu sér yfir en það dugði skammt og voru liðin mjög jöfn fyrri part seinni hálfleiks. Þegar um stundarfjórðungur var búin af seinni hálfleik leiddu Afturelding með tveimur mörkum. Þá taka Þórsarar leikhlé og aftur verður leikurinn jafn.

Mikil spenna var á loka mínútum leiksins. Liðin voru jöfn 22-22 þegar tvær mínútur voru til leiksloka en Úlfur Páll tryggði Aftureldingu sigur og skyldu liðin 24-22 þegar flautað var til leiksloka.

Af hverju vann Afturelding?

Þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmann skyndilega út í gær og höfðu lítinn tíma til að undirbúa sig án hans voru þeir mun ákveðnari á loka mínútum leiksins.

Leikurinn var gríðarlega jafn nánast allan tímann og var það bara spurning um hvor liðið myndi gefa meira í til að klára þetta og í dag var það Afturelding.

Varnarleikurinn þeirra var gríðarlega sterkur og sérstaklega í seinni hálfleik. Sóknarlega leystu þeir þetta vel miðað við aðstæður.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá heimamönnum var það Bergvin Þór Gíslason með 6 mörk og aðsjálfsögðu Úlfur Páll með 6 mörk og tryggði Aftureldingu sigur.

Arnór Freyr Stefánsson var með 7 bolta varða 29% markvörslu og til að mynda varði hann á loka mínútu leiksins sem hefði geta orðið jöfnunarmark Þórs.

Hjá Þór Ak. var það Ihor Kopyshynskyi með 8 mörk og Garðar Már Jónsson var öflugur í horninu með 5 mörk. Arnar Þór Fylkisson stóð í markinu lengst af og var með 8 bolta varða, 31% markvörslu og svo kom Jovan Kukobat á móti honum með 5 bolta, 45% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða átti erfitt uppdráttar um tíma í leiknum. Til að mynda þegar að Afturelding skoraði ekki í 7 mínútur. Í seinni hálfleik áttu Þórsarar erfiðara með að sækja á og var hendin hjá dómaranum oftar en ekki komin upp.

Hvað gerist næst?

Þór Ak. tekur á móti FH í Höllinni á Akureyri fimmtudaginn 17. september kl 19:00.

Afturelding sækir Fram heim í Safamýrina fimmtudaginn 17. september kl 19:30 og verður leikurinn sýndur í beinni á stöð2sport.

Þorvaldur: Það er gaman að vera mættur á stóra sviðið

„Það er gaman að vera mættur á stóra sviðið, nr 1, 2 og 3. Það er bara eins og við sveitamennirnir eru, við mætum til að slást,“ sagði Þorvaldur Þorvaldsson þjálfari Þórs, eftir tveggja marka tap á Aftureldingu í kvöld.

Þór leiddi með einum til tveimur mörkum bróðurpart leiks en misstu það frá sér á loka mínútum leiksins „Við erum kannski ekki alveg mættir á okkar stað ennþá, við eigum inni. Við erum ennþá að slípa þessa stráka saman, þeir eiga bara eftir að skána meira.“

Þórsarar eru nýliðar í Olís-deildinni þetta árið en þeir komu upp úr Grill 66 eftir síðasta tímabil. „Við erum vel stemmdir og hlökkum mikið til. Það er gaman að koma og mæta þessu stóru liðnum, það er heiður fyrir okkur. Hitta Gunna og þessa stráka og við erum bara brattir,“ sagði Þorvaldur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira