Golf

Ólafía tók stórt stökk á heimslistanum

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir glaðbeitt á mótinu í Tékklandi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir glaðbeitt á mótinu í Tékklandi. MYND/LET/TRISTAN JONES

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR flýgur upp um 74 sæti á heimslistanum í golfi eftir að hafa leikið vel á Evrópumótaröðinni um helgina.

Ólafía er nú í 841. sæti heimslistans en hún hefur hæst náð 170. sæti í janúar 2017, árið sem hún var kjörin íþróttamaður ársins og lék á þremur risamótum.

Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL er efst Íslendinga á heimslistanum en hún er í 565. sæti. Hæst hefur Valdís náð 299. sæti árið 2018.

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK er í 921. sæti heimslistans og fer niður um sjö sæti á milli vikna líkt og Valdís. Hæst hefur Guðrún náð 790. sæti.

Hlaut tæplega hálfa milljón í Tékklandi

Ólafía endaði í 20. sæti á móti í Tékklandi um helgina eftir að hafa leikið hringina þrjá á samtals -5 höggum. Hún var tólf höggum á eftir sigurvegaranum, hinni dönsku Kristine Pedersen.

Lítið hefur verið keppt í ár vegna kórónuveirufaraldursins en mótið um helgina var aðeins það sjötta á Evrópumótaröðinni, og það fyrsta hjá Ólafíu á mótaröðinni í ár. Hún hlaut 2.800 evrur, jafnvirði um 460 þúsunda króna, fyrir árangurinn í Tékklandi eftir að hafa óvænt fengið boð á mótið, en hún er með takmarkaðan keppnisrétt á mótinu.

Guðrún Brá keppti einnig í Tékklandi og varð í 57. sæti á +3 höggum. Hún hlaut 743 evrur í verðlaun eða rúmlega 120 þúsund krónur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.