Golf

Jon Rahm tryggði sér sigur með mögnuðu tuttugu metra pútti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjinn Jon Rahm fagnar sigurpúttinu sínu á BMW Championship.
Spánverjinn Jon Rahm fagnar sigurpúttinu sínu á BMW Championship. EPA-EFE/TANNEN MAURY

Jon Rahm fagnaði sigri á BMW Championship mótinu á bandarísku mótaröðinni um helgina en það þurfti umspil til að skera út um sigurvegara.

Jon Rahm og Dustin Johnson enduðu báðir mótið á fjórum höggum undir pari og úrslitin réðust því í umspili. Þeir félagar léku á tveimur höggum betur en Joaquin Niemann og Hideki Matsuyama sem deildu þriðja sætinu. Fimmti var síðan Tony Finau á einu höggi undir pari. Það lýsir erfiðleikastigi vallarins að aðeins fimm efstu kylfingunum tókst að spila undir pari á mótinu.

Jon Rahm tryggði sér sigurinn í umspilinu með því að seta niður meira en tuttugu metra pútt á lokaholunni. Dustin Johnson trúði því eiginlega ekki að kúlan hafi farið ofan í. Dustin átti möguleika á þvi að vinna sitt annað mót í röð en gat bara hlegið þegar hann sá pútt Rahm enda í holunni.

Jon Rahm þurfti ekki aðeins að pútta kúlunni þessa rúmu tuttugu metra heldur var einnig mikið landslag í flötinni og þurfti kúlan hans að fara yfir hrygg á leiðinni í holuna.

„Ég trúi því ekki ennþá að þetta hafi gerst,“ sagði Jon Rahm en Dustin Johnson sjálfur hafði tryggt sér sæti í umspilinu með tæplega fjórtán metra pútti. Þeir tveir buðu því upp á sýningu og dramatík á síðasta hálftíma mótsins.

Jon Rahm hafði spilað frábærlega á hringunum báðum um helgina sem hann lék á 66 og 64 höggum. Það var allt annað en fyrstu tveir hringirnir sem hann lék á sextán fleiri höggum eða á 75 og 71 höggi.

Jon Rahm er 25 ára gamall Spánverji sem hefur aldrei náð að vinna risamót. Hann var aftur á móti að vinna sinn annað PGA-mót eftir kórónuveiruhléið því Rahm vann einnig Memorial mótið í júlí. Rahm fékk 1,7 milljónir Bandaríkjadala fyrir að vinna mótið eða 236 milljónir íslenskra króna.

Hér fyrir neðan má sjá sigurpúttið hjá Jon Rahm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×