Skoðun

Hver þarf að sam­þykkja Snata?

Guðmundur Snæbjörnsson skrifar

Það gætir stundum misskilnings þegar kemur að hundahaldi í fjölbýli. Fólk heldur að það dugi að ganga á milli þeirra einstaklinga sem það deilir stigagangi með og fá samþykki hjá 2/3 fyrir hundahaldinu og þannig sé málið dautt.

Það er oftast rétt - en málið getur orðið talsvert flóknara.

Í 33. gr. a. laga um fjöleignarhús má finna þær reglur sem almennt gilda um hundahald þegar sérstakar húsreglur hafa ekki verið settar um slíkt. Greinin ber yfirtitilinn Hundar og kettir – samþykki allra. En hér þarf ekki að örvænta þar sem samþykki allra er ekki áskilið, og er titillinn óheppileg eftirlegukind frá frumvarpsdrögum sem breyttust í meðferð þingsins.

Í fyrstu málsgrein greinarinnar kemur fram að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi er háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Hér skal á það bent að áskilið er í 4. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga að sameiginlegar ákvarðanir skulu teknar á fundi eigenda, húsfundi. Ekkert er því til fyrirstöðu að safna undirritunum með því að ganga á milli nágranna sinna en það er ekki í samræmi við áskilnað laganna og þannig einfalt fyrir nágranna að ganga til baka við fyrri orð sín. Hér skiptir höfuðmáli að samþykki fyrir hundahaldi sem veitt er á húsfundi er óafturkallanlegt að óbreyttum forsendum.

Einnig er mikilvægt að væntir hundaeigendur séu meðvitaðir um reglurnar sem gilda þegar þarf samþykki 2/3 hluta eigenda. En í slíku tilviki er bæði miðað við fjölda og eignarhluta. Þannig getur sú staða komið upp að ef tveir af þremur eigendum hafa samþykkt hundahaldið en einn, sem á íbúð sem er yfir 33,3 % af húsinu, leggst á móti hundahaldinu, þá væri ekki um að ræða samþykki með lögmætum meirihluta.

Þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða er samþykkis annarra eigenda ekki þörf fyrir hundahaldi í húsinu. Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Einnig eiga sérreglur við um leiðsögu- og hjálparhunda.

Höfundur er lögmaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×