Viðskipti innlent

Segir vegið að grundvallarreglum á vinnumarkaði og undirbúa málsókn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir mikilvægt að fá úr því skorið hvort útspil Icelandair í kjaradeilu við Flugfreyjufélag Íslands hafi verið lögmætt.
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir mikilvægt að fá úr því skorið hvort útspil Icelandair í kjaradeilu við Flugfreyjufélag Íslands hafi verið lögmætt.

Alþýðusamband Íslands hyggst stefna Icelandair fyrir félagsdómi vegna framgöngu félagsins í kjaradeilu við flugfreyjur. Lögfræðingur ASÍ segir Icelandair hafa vegið að grundvallarreglum á vinnumarkaði.

Á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í síðustu viku fjallaði Magnús Norðdahl lögræðingur sambandsins um kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair. Eftir langar og strangar viðræður deilenda, þar sem hvorki gekk né rak, greip Icelandair, þann 17. júlí, til þess ráðs að slíta viðræðum við Flugfreyjufélagið og segja upp öllum flugfreyjum- og þjónum félagsins. Stjórnendurnir sögðust í kjölfarið ætla að hefja viðræður við annan samningsaðila.

Á miðstjórnarfundinum var samþykkt að hafinn yrði undirbúningur að Félagsdómsmáli gegn Icelandair. Magnús telur að félagið hafi farið á svig við lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

„Þetta er meginregla sem ekki var höfð í heiðri. Í staðinn fyrir að bregðast við innan ramma laganna þá var gripið til þess ráðs að segja upp öllum félagsmönnum stéttarfélagsins og lýsa því yfir að tilgangurinn sé sá að semja við einhvern annan óskilgreindan aðila. Þetta er ólögmætt og það er meira að segja til sérstakt ákvæði í lögunum sem mælir fyrir um að það sé bannað að nota uppsagnir eða hótanir um slíkt til að hafa áhrif í vinnudeilum. Þarna er verið að vega að grundvallarreglum í samskiptum aðila á vinnumarkaði.“

Magnús var spurður hvort hann teldi að útspil Icelandair myndi hafa frekari afleiðingar í för með sér fyrir vinnumarkaðinn í heild.

„Það þori ég nú ekki að leggja mat á – hverjar afleiðingarnar verða til framtíðar. Það þarf hins vegar að leysa úr því og fá það staðfest að þarna hafi verið framið brot. Það er iðulega gert þegar verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur takast á fyrir félagsdómi um það hvernig eigi að haga sér í vinnudeilum.“

Eru fordæmi fyrir þessu?

„Fordæmin sem þú getur fundið um svona hegðun, þau liggja ansi langt aftur í fortíðinni.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×