Körfubolti

Dominos Körfuboltakvöld: Þegar Einar Bolla færði Jordan lopapeysu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Einar Bollason og Michael Jordan.
Einar Bollason og Michael Jordan. Vísir/Skjáskot
Körfuboltakvöld Kjartans Atla Kjartanssonar var á dagskrá Stöðvar 2 Sports í gærkvöldi þó enginn körfubolti sé spilaður um þessar mundir. Þátturinn var með öðru sniði þar sem rifjað var upp fyrstu ár NBA körfuboltans í íslensku sjónvarpi.

Heimir Karlsson og Einar Bollason sáu um umfjöllunina í kjölfar þess að Stöð 2 keypti sýningarréttinn af NBA körfuboltanum árið 1987 og er óhætt að segja að sannkallað NBA æði hafi gripið um sig á Íslandi í kjölfarið.

Heimir og Einar voru gestir Kjartans Atla í gær ásamt Valtý Birni Valtýssyni sem tók við af Heimi nokkrum árum síðar.

Í þættinum var rifjaður upp þáttur sem tekinn var upp sem ferðasaga árið 1988 þegar Heimir og Einar heimsóttu Chicago borg og sáu þar Chicago Bulls leika gegn Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs en á meðal leikmanna Spurs á þessum tíma var Íslendingurinn Pétur Guðmundsson.

Aðgengi þeirra Heimis og Einars að liðunum var hreint út sagt ótrúlegt þar sem þeir spígsporuðu um búningsklefa liðanna og tóku viðtöl við skærustu stjörnur liðanna og það voru engin smástirni.

Michael nokkur Jordan var þarna búinn að skapa sér nafn í NBA deildinni og nálgaðist óðum hátind sinn en hann átti siðar eftir að skapa sér sess sem einn allra besti íþróttamaður sögunnar. 

Jordan gaf sér góðan tíma til að ræða við Heimi og Einar og fékk að endingu glæsilega lopapeysu að gjöf frá Einari. Viðtalið við Jordan var á meðal þess sem rifjað var upp í Körfuboltakvöldi í gær eins og sjá má í innslaginu hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Lopapeysa Michael Jordan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×