Viðskipti erlent

Ítalir þurfa ekki að borga af húsnæðislánum sínum í sóttkví

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íbúar Napólí birgja sig upp af nauðsynjavörum fyrir dvöl sína í sóttkví.
Íbúar Napólí birgja sig upp af nauðsynjavörum fyrir dvöl sína í sóttkví. Getty/KONTROLAB
Ítalir munu ekki þurfa að borga af húsnæðislánum sínum meðan kórónuveirufaraldurinn geisar þar í landi, með meðfylgjandi aðgerðum þarlendra stjórnvalda. Þetta kom fram í máli aðstoðarefnahagsráðherra Ítalíu í útvarpsviðtali í morgun.

„Já, þetta stendur til, fyrir einstaklinga og heimili,“ sagði Laura Castelli í samtali við Radio Anch'io aðspurð um þennan möguleika. Að auki munu fjölskyldur ekki þurfa að standa skil á öðrum sambærilegum útgjöldum meðan aðgerðir ítalskra stjórnvalda eru í gildi. Castelli sagði aukinheldur að stjórnvöld séu þegar búin að ráðfæra sig við þarlendan bankageira um málið.

Meðfram þessu hefur verið tekin ákvörðun um að stækka björgunarpakkann til handa einstaklingum og fyrirtækjum sem berjast nú í bökkum vegna kórónuveirunnar. Upphaflega höfðu ítölsk stjórnvöld ætlað 7,5 milljaðra evra í verkið en tilkynntu í morgun að heildarupphæðin yrði nær 10 milljörðum evra, rúmlega 1450 milljörðum íslenskra króna.

Sjá einnig: Efasemdir um að aðgerðir Ítala séu vænlegar til árangurs

Stefano Patuanelli, efnhagsþróunarmálaráðherra Ítalíu, sagði fyrirséð að hallarekstur ríkisjóðs muni nema tæplega 3 prósentum af vergri landsframleiðslu í ár, samanborið við 1,6 prósent halla í fyrra.

Eins og greint var frá í gærkvöld hafa Ítalir hert aðgerðir sínar til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar, sem hefur leikið norðurhluta landsins grátt. Frá og með deginum í dag er landið allt í sóttkví; búið að banna fjöldasamkomur, loka skólum og leikhúsum og takmarka ferðafrelsi gríðarlega. Þannig má aðeins ferðast til og frá vinnu í neyðartilfellum. Aðgerðirnar ná til allra íbúa landsins, sem telja rúmlega 60 milljónir.

Flest kórónuveirutilfellin í Evrópu hafa enda komið upp á Ítalíu. Staðfestu smittilfellin voru um 9200 þar í landi í gær og hafa þau dregið 463 til dauða. Rúmlega 720 Ítalir hafa hins vegar náð sér af kórónuveikindum sínum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×