Körfubolti

Pétur Rúnar spilar landsleik á afmælisdaginn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson fékk að sjálfsögðu köku í tilefni dagsins.
Pétur Rúnar Birgisson fékk að sjálfsögðu köku í tilefni dagsins. Mynd/KKÍ

Skagfirski körfuboltamaðurinn Pétur Rúnar Birgisson heldur upp á 24 ára afmælisdaginn sinn með því að spila landsleik út í Kósóvó.

Íslenska körfuboltalandsliðið mætir í dag heimamönnum í forkeppni fyrir undankeppni HM 2023 en strákarnir spila svo við Slóvakíu í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.

Leikurinn við Kósóvó er fyrsti leikur beggja liða í riðlinum og því mikilvægt fyrir báðar þjóðir að byrja keppnina vel.

Það er vonandi að íslenski bakvörðurinn fá sigur í afmælisgjöf.

Pétur Rúnar Birgisson er fæddur 20. febrúar 1996 en hann hefur spilað allan feril sinn hjá Tindastól.

Þetta verður tíundi A-landsleikur hans en sá fyrsti síðan í vináttuleik á móti Norðmönnum í september 2018.

Pétur hefur leikið tvo aðra leiki í undankeppni en þeir voru á móti Finnum og Tékkum í febrúar fyrir tveimur árum síðan.

Pétur Rúnar fékk að sjálfsögðu afmælisköku á hóteli landsliðsins eins og kemur fram á fésbókarsíðu KKÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×