Enski boltinn

Tíu ára stuðnings­­maður Man. United bað Klopp um að hætta að vinna leiki og fékk svar til baka

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool. vísir/getty

Daragh Curley er tíu ára gamall stuðningsmaður Manchester United sem sendi Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, bréf á dögunum og fékk meira að segja svar til baka frá þeim þýska.

Liverpool er að undirbúa sig undir fyrsta Englandsmeistaratitilinn í 30 ár en liðið er með 22 stiga forskot á toppi deildarinnar er vel er liðið á tímabilið.

Daragh virðist ekki sáttur með gengi Liverpool enda stuðningsmaður erkifjendanna í United. Hann ákvað því að skrifa Jurgen Klopp bréf.

„Ég heiti Daragh. Ég er tíu ára gamall. Ég er í Glenswilly skólanum í Donegal. Ég styð Man. United og ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta bréf er vegna þess að ég ætla að mótmæla,“ sagði í bréfinu.

„Liverpool er að vinna of marga leiki. Ef þið vinnið níu leiki í viðbót þá eigiði flesta leiki í röð án þess að tapa og verandi United-stuðningsmaður er það sárt.“

„Svo næst þegar Liverpool spilar láttu þá tapa. Þú ættir að láta hitt liðið skora. Ég vona að ég hafi sannfært þig um að vnna ekki deildina og aldrei vinna leik aftur,“ sagði ennfremur í bréfinu.







Klopp ákvað hins vegar að slá til og svara bréfinu. Hann þakkaði Daragh fyrir að senda bréfið og sagði að það væri alltaf gott að heyra í ungum fótboltaaðdáendum.

Hann sagðist þó ekki geta orðið við beiðninni. Sagði hann að milljónir manna víðast hvar um heiminn haldi með Liverpool og hann vilji ekki svekkja það fólk.

„Ég vona að ef við erum nógu heppnir og kannski lyftum einhverjum bikurum þá verðuru ekki vonsvikinn því þrátt fyrir að félög okkar séu fjendur þá berum við virðingu fyrir hvort öðru. Fyrir mig snýst fótbolti um það,“ sagði Klopp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×