Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Afturelding 22-24 | Langþráður sigur Mosfellinga

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Adam Haukur Baumruk er hér að sleppa í gegnum vörn Aftureldingar.
Adam Haukur Baumruk er hér að sleppa í gegnum vörn Aftureldingar. vísir/bára

Afturelding vann í kvöld sinn fyrsta keppnisleik á árinu þegar þeir sigruðu Hauka í Hafnarfirði. Fyrir leikinn voru gestirnir bara með 1 stig úr 4 leikjum á árinu svo þessi sigur var eflaust kærkominn. Haukar eru sömuleiðis í frjálsu falli eftir áramót en þeir eru bara með einn sigur í síðustu 5 leikjum. 

Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiks fyrsta korterið en Grétar Ari byrjaði leikinn mjög vel í markinu hjá Haukum. Sóknarleikur Hauka var aftur á móti ekkert spes en það vantaði hraða og þeir voru ansi duglegir að kasta boltanum frá sér.

Um miðjan fyrri hálfleik tók vörnin hjá Aftureldingu bara og setti í lás. Mosfellingarnir héldu hreinu í meira en 10 mínútur og oft voru Haukar ekki svona að ná að skjóta í átt að markinu hvað þá inn í markið. Gunnar Magnússon þjálfari Hauka tók fyrstu tvö leikhléin sín með minna en 5 mínútna millibili á þessum markalausa kafla en það hjálpaði lítið til. Sóknarleikur Aftureldingar var allt í lagi í fyrri hálfleik en vörnin hjálpaði þeim mikið með að búa til hraðaupphlaup. Staðan í hálfleik var 13-8 Aftureldingu í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði á sömu nótum og sá fyrri. Það var jafnræði milli liðanna og forystu gestanna flakkaði á milli 4-7 marka. Haukar settu síðan í lás síðustu 10 mínútúrnar og leyfðu bara eitt mark á síðustu 10 mínútunum. Haukar náðu minnst að minnka muninn niður í 1 mark en þá skoraði Einar Ingi mikilvægt mark af línunni. Haukar fengu nokkrar tilraunir til að minnka muninn aftur en Arnór Freyr Stefánsson markmaður Aftureldingar setti aftur í lás síðustu mínúturnar. 

Af hverju vann Afturelding?

Varnarleikurinn hjá Aftureldingu var stórkostlegur í þessum leik, þeir létu Hauka vinna fyrir hverjum einasta sentimeter sem leiddi til þess að þeir tóku fullt af erfiðum skotum og töpuðu boltanum oftar.

Hverjir stóðu upp úr?

Markmennirnir áttu báðir mjög flotta leiki en Arnór var sérstaklega duglegur að verja á mikilvægum tímapunktum. 

Guðmundur Árni Ólafsson var frábær sóknarlega en hann var bæði duglegur að koma sér fram og síðan geggjaður í að klára færin sín en hann var 8/9 í kvöld. Einar Ingi Hrafnsson gerði gríðarlega vel inni á línunni þegar hann fékk boltann auk þess sem hann var illviðráðanlegur í vörninni eins og Böðvar sem var með honum í þristinum. Gunnar Kristinn Malquist Þórsson átti síðan frábæran leik varnarlega en hann var með 8 löglegar stöðvanir og tók 3 fráköst. Fótavinnan og vinnusemin hans var til fyrirmyndar.

Adam Haukur Baumruk var heilt yfir skásti útileikmaður Hauka í leiknum en hann var góður varnarlega auk þess að þurfa að taka fullt af skotum útaf hugmyndarsnauðum sóknarleik. 

Hvað gekk illa? 

Sóknarleikur Hauka var heilt yfir slakur í kvöld. Þeir áttu erfitt með að finna hornin og línuna og fiskuðu ekkert víti í leiknum. Síðan hjálpuðu þessir 11 töpuðu boltar ekki til. 

Hvað gerist næst?

Final 4 í höllinni. Bæði þessi lið eru komin í undanúrslit í Coca-Cola bikarnum en Afturelding spilar við Stjörnuna á meðan Haukar spila við Eyjamenn.

 

Gunni Magg: Lífið er ekki dans á rósum

„Strákarnir gáfu gjörsamlega allt í þetta. Því miður tókst það bara ekki. Auðvitað er erfitt að fara í gegnum brekku en það er bara þannig. Það er engin dilkur á okkur. Það er bara ein leið út úr þessu, við brettum upp ermar og leggjum helmingi harðar að okkur. Við þurfum að vinna okkur út úr þessu. Mér fannst við samt sjá batamerki í dag. Hrikaleg barátta í drengjunum og við gáfum allt í þetta. Sóknarlega vantaði að klára færin betur og sumar ákvarðanatökurnar voru líka slæmar, ” sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka eftir leik kvöldsins. 

Haukar tóku meira en tíu mínútna kafla í lok fyrri hálfleiks þar sem þeir skoruðu ekki mark. Sóknarleikurinn var hugmyndasnauður og þeir töpuðu boltanum mikið.  

„Við duttum niður sóknarlega síðasta korterið í fyrri hálfleik. Við vorum að spila fínan varnarleik allan tímann. Við vorum bara í vandræðum með að skora, við vorum að koma okkur í þau færi sem við vildum koma okkur í en við vorum bara í vandræðum með að klára færin.”  

Þrátt fyrir að hafa verið undir með meira en fjórum mörkum eiginlega allan leikinn náðu Haukar að gera þetta smá spennandi í lokin. Því miður fyrir þá náðu þeir ekki að klára endurkomuna. 

„Kannski vantaði smá skynsemi í lokin. Við fengum færi til að koma okkur inn í leikinn og hann var okkur erfiður í markinu. Það var náttúrulega erfitt. Við gerum okkur þetta dálítið erfitt með að vera komnir 5 mörkum undir í fyrri hálfleik. Það er sá kafli sem að fer með þetta.”  

 Haukar eru núna búnir að tapa fjórum leikjum í röð í deildinni en þeir voru fyrir það efstir í deildinni. Gunni var ekki með eitt ákveðið svar fyrir því af hverju liðið er að detta niður í töflunni.

„Þetta er bara erfitt. Það lenda flest lið í boltaíþróttum í smá brekku. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Það er smá brekka hjá okkur og við þurfum bara að vinna okkur út úr því. Við þyrftum heilan þátt ef þú vilt að ég fari að útskýra þetta allt saman.” 

„Við erum ekkert að væla yfir einu né neinu. Við bara brettum upp ermar og stöndum þétt saman. Við erum sterkur hópur með góða liðsheild og við vinnum okkur út úr þessu. Mér fannst ég sjá batamerki á liðinu í dag. Ef við höldum áfram á sömu braut þá náum við okkur aftur inn á beinu brautina.” 

 

Einar Andri: Það var úrslitakeppnisfýlingur yfir þessu

„Allt liðið var bara stórkostlegt, mikill agi og þolinmæði. Mér fannst þeir bara spila frábærlega, við hefðum getað spilað betur síðustu 10 mínúturnar. Þetta var orðið smá stress í lokinn en heilt yfir góður sigur,” sagði Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar sáttur eftir leik kvöldsins.

Vörnin og sérstaklega markvarslan voru frábær í kvöld hjá Aftureldingu. Einar benti sérstaklega á tenginguna á góðri vörn og góðri markvörslu.

„Mér fannst liðið frábært í dag. Við spilum frábæra vörn og Arnór var mjög góður líka. Það er lennskan hjá okkur að þegar við spilum góða vörn þá fáum við líka góða markvörslu.”

Það sást vel að bæði lið voru áköf að ná loksins í sigur í kvöld. Bæði lið eru búin að ströggla í síðustu leikjum og orkan sem fór í vörnina var mikil sérstaklega hjá Aftureldingu.

„Þegar maður fær á sig 22 mörk og varnarleikurinn er jafn sterkur og hann er þá er mjög erfitt að tapa. Þetta var bara hörkuleikur, það var smá úrslitakeppnisfýlingur yfir þessu. Menn lögðu allt í þetta í báðum liðum.” 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira