Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Haukar 79-74 | Keflavík hélt 3. sæti

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir, leikmaður Hauka.
Þóra Kristín Jónsdóttir, leikmaður Hauka. vísir/daníel

Keflavík tók á móti Haukum í kvöld í síðasta leik liðanna í deildarkeppninni á þessu tímabili. Keflavík hafði unnið tvo leiki af þremur milli liðanna fram að þessu og höfðu unnið þá samtals með 19 stigum. Haukar höfðu hins vegar unnið seinasta leikinn við Keflavík með 7 stigum. Þetta skipti máli vegna þess að Haukar þurftu þá að vinna þennan leik með 13 stigum eða meira til að eiga innbyrðis sigur á Keflavík í deildarkeppninni. Það skipti hins vegar litlu máli því að Haukar enduðu á að tapa leiknum með fimm stigum, 79-74.Liðin byrjuðu leikinn rólega og voru að gera helling af mistökum. Dómararnir leyfðu mikið í byrjun sem sást á því að þeir dæmdu aðeins tvær villur fyrstu sex mínútur leiksins. Liðin töpuðu samtals fimmtán boltum fyrstu tíu mínúturnar og það virtist fátt um fína drætti sóknarlega.Keflvíkingar tóku smá áhlaup til að breikka bilið um miðjan fyrri hálfleikinn en Haukastelpur náðu hægt og bítandi að finna sig í vörn og sókn og voru aðeins þremur stigum á eftir heimaliðinu í hálfleik, 39-36.Haukar breyttu aðeins um varnaráherslur í seinni hálfleik og tóku ágætis áhlaup fyrstu mínúturnar en Keflavík fann sig enn á ný þegar bekkurinn kom inn á hjá þeim og héldu áfram að spila fasta vörn. Þær endurheimtu forystuna og létu hana ekki af hendi það sem eftir var leiksins.Þrátt fyrir ágæta rispu undir lokin hjá Haukum gátu þær ekki náð Keflavík á lokasprettnum og staðan varð því að lokum 79-74 fyrir heimastúlkum.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík voru betri í vörn í kvöld og Haukar þurftu oft að sætta sig við erfið skot seint í skotklukkunni. Suðurnesjastúlkurnar hittu þar að auki loksins á góðan skotleik. Ágæt vörn og góð skotnýting vann leikinn fyrir heimaliðið í kvöld.

Bestu leikmenn vallarins

Daniela Morillo var best leikmaður Keflavíkur í kvöld en hún lauk leik með 30 stig, 18 fráköst, fjórar stoðsendingar og fimm stolna bolta. Daniela var lang framlagshæst í báðum liðum með 42 framlagspunkta. Þóranna Kika Hodge-Carr var sömuleiðis mjög fín með 13 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og þrjá stolna bolta.Hjá Haukum var Randi Brown stigahæst með 29 stig. Lovísa Björt Henningsdóttir hlóð í tvöfalda tvennu með 11 stigum og 11 fráköstum.

Tölfræði sem vakti athygli

Keflvíkingar fengu færri skot á körfuna í kvöld en Haukar en hittu úr fleirum. Þrátt fyrir að þær fengu færri sóknir í leiknum nýttu þær færin betur og komust frá leiknum með fimm stiga sigur.

Hvað gekk illa?

Bæði lið voru hrikalega slæm að passa upp á boltann í kvöld. Samanlagt töpuðu liðin 47 boltum á heildina og sigurliðið tapaði fleirum boltum en andstæðingarnir, ótrúlegt nokk.Haukar fundu illa skotin sín í kvöld og voru eilítið úr takti gegn vörn Keflvíkinga á löngum köflum í leiknum.

Hvað næst?

Keflavík mætir næst Breiðablik í Smáranum eftir viku en Haukar þurfa að spila frestaða leikinn sinn gegn Skallagrím núna á sunnudaginn. Skallagrímur fékk að fresta leiknum vegna veikinda í liðinu sínu.

Katla: Andinn í liðinu miklu betri

Katla Rún Garðarsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, var ánægð eftir sigurinn á Haukum í kvöld í Keflavík, 79-74. Lið hennar hefur átt erfitt uppdráttar eftir áramót en virðast vera að rétta hlut sinn eftir bikarfríið. Þær unnu KR í seinustu umferð og hafa núna innbyrðis yfir gegn Haukum í deildarkeppninni.„Já, mér finnst við farnar að spila betur saman í síðustu tveim leikjum,“ sagði Katla um liðið sitt undanfarið. „Það vita allir að við vorum ekki að spila okkar leik eftir áramót en mér finnst við vera að finna okkur núna og erum að þjappa okkur saman.“Leikstjórnandi Keflavíkur getur varla leynt brosinu þegar hún segir frá upplifuninni innan liðsins seinustu vikurnar. „Andinn í liðinu er orðinn miklu betri og mér finnst allt ógeðslega skemmtilegt núna!“ segir hún kát.Keflavík átti slaka byrjun á nýju ári en er núna loksins að finna sig. Hvað veldur? „Ég veit það ekki alveg, það er eins og jólafríið hafi farið illa í okkur en bikarfríið farið vel í okkur. Við lítum bara á það þannig og höldum ótrauð áfram,“ sagði Katla um framhaldið.Leikurinn gegn Haukum var góður en Keflvíkingar pössuðu ekki vel upp á boltann í honum. Katla gekkst við því og taldi sig vita ástæðuna. „Við vorum svolítið stífar í leiknum og vorum að tapa boltanum á klaufalegan hátt. Á algjörlega ónauðsynlegan hátt,“ sagði hún og tapaði sjálf sex boltum í leiknum.Suðurnesjalið hafa oft verið þekkt fyrir að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna en Keflavík hefur ekki sýnt það í langan tíma. Í þessum leik voru þær hins vegar að finna þristana. „Þriggja stiga nýtingin var loksins einhver í þessum leik. Hún er ekki búin að vera góð undanfarið en var loksins fín,“ sagði Katla um skotnýtingu sinna liðsmanna.Katla Rún bætti við að lokum að Keflavík hefur yfirleitt verið að vinna leiki á hinum enda vallarins. „Vörnin hefur verið að vinna leiki fyrir okkur en ekki skotnýtingin,“ sagði hún og hélt hress inn í búningsklefa til að fagna með liðinu.

 

Lovísa Björt: Vorum frekar litlausar og trúðum ekki á skotin okkar.

„Þetta var frekar erfiður leikur,“ sagði Lovísa Björt um tapið gegn Keflavík strax að honum loknum. „Við vitum það fyrir leikinn að Keflavík er hörkulið og að þær berjast eins og ljón. Það var eins og við vissum það ekki og vorum ekki tilbúnar í það.“Haukar byrjuðu leikinn ekkert sérlega vel og réðu illa við pressuna frá vörn Keflavíkur í fyrstu. „Öll lið í deildinni vita hvernig Keflavík spilar, þær eru fastar fyrir og við þurftum að koma miklu ákveðnari inn í leikinn en þetta ef við ætluðum að vinna,“ sagði Lovísa um hugarfar síns liðs í leiknum.„Það var eins og við vorum frekar litlausar og trúðum ekki á skotin okkar,“ sagði Lovísa jafnframt um slaka skotnýtingu liðsins. Þær virtust alltaf hika í skotunum og það var ekki til eftirbreytni í leiknum. „Það á ekki að vera þannig, við erum með frábæra skotmenn,“ sagði hún viss í sinni sök.„Við vorum að fá skotin og þau voru frekar opin í kvöld en þau duttu bara ekki hjá okkur. Eitthvað sem við verðum bara að æfa betur.“Haukastúlkur áttu góðu gengi að fagna í lok síðasta árs og í janúar en hafa verið aðeins að missa flugið undanfarið. Hvað veldur? Þreyta, álag, eitthvað annað? „Kannski bara sitt lítið af hverju,“ sagði Lovísa Björt hugsi. Hún sagði hins vegar að þær hafnfirsku þyrftu að laga það sem fyrst.„Það er ekki tími til að bakka núna. Úrslitakeppnin er framundan þannig að við verðum að gefa í eða við förum ekki áfram,“ sagði hún enda eru Haukar að keppast um úrslitakeppnissæti við Keflavík og Skallagrím og ekki margir leikir eftir í deildarkeppninni.„Við þurfum að trúa á okkur sjálfar. Við erum að spila þessa leiki á móti Keflavík og KR og erum alveg inn í þeim en náum einhvern veginn ekki að klára og komast yfir,“ sagði Lovísa um hvað þyrfti að gerast til að rétta stefnu liðsins.Haukar geta unnið öll lið í deildinni en þær verða að finna út hvað sé að klikka til að missa ekki af lestinni. „Við þurfum aðeins að kíkja á sjálfa okkur og hvað við erum að gera vitlaust því að við eigum að geta unnið þessa leiki,“ sagði Lovísa um naflaskoðunina sem liðið þarf að fara í. Þær geta hlaupið með öllum þessum toppliðum og unnið þau.„Við erum með nógu gott lið til þess.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.