Körfubolti

Luka Doncic með miklu fleiri þrennur en Magic og LeBron voru með til samans á sama aldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic er búinn að jafna félagsmet Jasons Kidd hjá Dallas.
Luka Doncic er búinn að jafna félagsmet Jasons Kidd hjá Dallas. Getty/Logan Riely

Luka Doncic spilaði í nótt sinn síðasta leik í NBA-deildinni fyrir 21 árs afmælið sitt og bætti þar við enn einni þrennunni.

Framganga hans í fyrstu 119 leikjum sínum í NBA-deildinni hefur verið mögnuð en Slóveninn er fyrir löngu kominn upp í hóp með bestu leikmönnum deildarinnar.



Luka Doncic var með 26 stig, 10 fráköst og 14 stoðsendingar í 109-103 sigri Dallas Mavericks liðsins á San Antonio Spurs. Hann jafnaði með þessu félagsmet Jason Kidd yfir flestar þrennur í búningi Dallas Mavericks.

Þetta var 21. þrenna Luka Doncic í NBA-deildinni sem er miklu meira en allir aðrir hafa náð fyrir 21 árs afmælið sitt í bestu körfuboltadeild í heimi.

Næstu menn eru þeir Magic Johnson og LeBron James sem voru samtals með tólf þrennur áður en þeir urðu 21 árs gamlir, Magic sjö og LeBron fimm.



Luka Doncic var með átta þrennur á nýliðatímabilinu sínu en þetta var þrettánda þrennan hans á þessu tímabili.

Doncic er nú með 28,7 stig, 9,6 fráköst og 8,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í 47 leikjum með Dallas Mavericks á þessu tímabili.

Luka Doncic er fæddur 28. febrúar 1999 og heldur því upp á 21. ára afmælið sitt á morgun.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×