Körfubolti

Sigtryggur Arnar: Erum í þessu til að vinna titla

Ísak Hallmundarson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson og félagar eru komnir í bikarúrslitaleikinn.
Sigtryggur Arnar Björnsson og félagar eru komnir í bikarúrslitaleikinn. vísir/bára

Grindavík komst í úrslit Geysis-bikarsins í körfubolta með sigri á Fjölni í Laugardalshöll í kvöld.

Sigtryggur Arnar Björnsson átti góðan leik, skoraði 25 stig og gaf 8 stoðsendingar. Hann var í viðtali við Vísi eftir leik.

,,Mér líður mjög vel, við erum komnir í úrslit og það var markmiðið. Þetta var mjög erfiður leikur þannig það er enn þá skemmtilegra að vinna.‘‘

Sigtryggur setti niður þriggja stiga flautukörfu til að koma Grindvíkingum yfir í lok þriðja leikhluta.

,,Það hjálpaði alveg mjög mikið, við áttum það inni eftir að Tommi setti fyrir aftan miðju, þannig við áttum þennan inni. Þetta var bara góð liðsheild, það var kraftur í okkur í seinni hálfleik og við vorum að hitta vel.‘‘

Sigtryggur hefur áður unnið bikarmeistaratitil með Tindastól árið 2018. Hann var spurður út í hversu mikla þýðingu úrslitaleikurinn á laugardaginn hefði fyrir hann.

,,Bara mjög mikla og örugglega fyrir Grindavíkurbæ líka og alla sem eru í kringum þetta, þannig þetta er risastór leikur. Það er titill í boði og við erum í þessu til að vinna titla.‘‘

Þá segist hann ánægður með nýjustu leikmenn liðsins, Miljan Rakic og Seth Le Day:

,,Þeir smellpassa í þetta lið, Miljan með mikla reynslu, þægilegur fyrir liðið og Seth bara ungur og graður og tilbúinn að leggja á sig til að vinna,‘‘ sagði Sigtryggur hress að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×