Fótbolti

Pele svarar syni sínum í yfirlýsingu: Ég er ekki hræddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele með Kylian Mbappe en þeir eru einu táningarnir sem hafa náð að skora mark í úrslitaleik HM í fótbolta.
Pele með Kylian Mbappe en þeir eru einu táningarnir sem hafa náð að skora mark í úrslitaleik HM í fótbolta. Getty/Anthony Ghnassia

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pele gerir lítið úr áhyggjum sonar síns og segir ekkert til í því að hann skammi sín vegna slæmrar heilsu eða að hann þori ekki lengur út úr húsi.

Edinho, sonur Pele, tjáði sig opinberlega á dögunum um áhyggjur af föður sínum. Hann talaði meðal um það að hinn 79 ára faðir hans skammaði sín fyrir að geta ekki gengið lengur óstuddur vegna mjaðmavandamála og það hefði mjög slæm áhrif á hann andlega.

Pele, sem varð á sínum tíma heimsmeistari í þrígang og er einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar, hefur allt aðra sögu að segja.



„Ég er góður. Ég sætti mig við líkamlegar takmarkanir mínar eins vel og mögulegt er og held áfram að láta boltann rúlla,“ sagði Pele sem var aðeins sautján ára gamall þegar hann sló í gegn á HM í Svíþjóð 1958.

Pele skoraði alls 1281 mark í 1363 leikjum á 21 árs ferli en þar af voru 77 mörk í 91 landsleik fyrir Brasilíu. Hann varð heimsmeistari 1958, 1962 og 1970.

Hann gekkst undir aðgerð á blöðruhálskirtli árið 2015 og fór á sjúkrahús vegna þvagrásarsýkingar á síðasta ári.

Vinir hans segja hins vegar að Pele hafi haft í nógu að snúast í janúar. Pele fór í myndatökur og vann fyrir styrktaraðila sína. Þá er hann að vinna í að gera heimildarmynd um lífið sitt.

„Ég forðast ekki mínar skuldbindingar og það er alltaf nóg að gera hjá mér,“ sagði Pele í yfirlýsingu sinni.

„Ég á bæði góða og slæma daga sem er eðlilegt fyrir mann á mínum aldri. Ég er ekki hræddur, Ég er staðráðinn í að sinna mínum málefnum og hef trú á mér í þeim,“ sagði Pele.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×