Fótbolti

Zidane tók sjálfu með manni sem hann keyrði aftan á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ökuþórinn Zinedine Zidane.
Ökuþórinn Zinedine Zidane. vísir/getty

Spænskur maður tók mynd af sér með Zinedine Zidane, knattspyrnustjóra Real Madrid, skömmu eftir að Frakkinn keyrði aftan á bifreið hans um síðustu helgi.

Þegar Zidane var á leið á æfingasvæði Real Madrid á sunnudaginn keyrði hann aftan á bíl við hringtorg hjá Valdebebas í Madríd.

Ökumaðurinn í bílnum sem Zidane keyrði á var Ignacio Fernandez, eigandi húsgagnaverslunar. Honum virtist vera slétt sama um aftanákeyrsluna því hann fékk mynd af sér með Zidane.

„Ég kannaðist strax við hann og ég sá hann. Ég sagði að það hefði verið skemmtilegra að hittast undir öðrum kringumstæðum en þetta væri ekki of slæmt,“ sagði Fernandez við La Voz de Galicia.

„Ég spurði hvort ég mætti taka mynd af mér með honum því annars myndi fólk ekki trúa mér þegar ég segði að Zidane hefði keyrt aftan á mig. Hann var kurteis og svaraði játandi. Hann var hins vegar ekki tilbúinn leysa málið með því að skiptast á bílum.“



Umboðsmaður Zidanes hringdi seinna í Fernandez og sagði að Frakkinn hefði verið þakklátur hvernig hann tók á málinu. Hann hafi verið á hraðferð og hafi verið feginn að losna við bón um miða á leik eða eiginhandaráritun.

Fernandez sagðist ekki hafa verið að falast eftir neinu slíku enda hafi hann takmarkaðan áhuga á fótbolta.

Strákarnir hans Zidanes í Real Madrid eru með þriggja stiga forskot á toppi spænsku úrvalsdeildinni. Næsti leikur þeirra er gegn Celta Vigo á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×