Handbolti

Viktor, Óðinn og Arnar höfðu betur í Íslendingaslagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markvörslur Viktors voru lykillinn að sigri GOG í dag.
Markvörslur Viktors voru lykillinn að sigri GOG í dag. Vísir/Bára

GOG hafði naumlega betur gegn Skjern í Íslendingaslag dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag, lokatölur leiksins 28-27. 

Leikur dagsins var einkar jafn og munurinn á liðunum sjaldnast meira en eitt mark. Gestirnir í Skjern náðu þó þriggja marka forystu í fyrri hálfleik í stöðunni 10-7. Sú forysta var hins vegar komin niður í eitt mark þegar flautað var til hálfleiks. Staðan þá 15-14 Skjern í vil.

Áfram hélt leikurinn að sveiflast fram og til baka í síðari hálfleik en Skjern virtist þó alltaf skrefi á undan. Eða allt þangað til Viktor Gísli Hallgrímsson fann taktinn í marki heimamanna og varði vel á mikilvægum augnablikum leiksins. 

Markvörslur hans gáfu GOG möguleikann á að ná tveggja marka forystu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Staðan þá 27-25 og tókst GOG á endanum að sigla stigunum tveimur heim með eins marks sigri, lokatölur 28-27.

Viktor Gísli varði 12 skot í marki GOG og þá skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson þrjú mörk. Arnar Freyr Arnarsson komast ekki á blað. Í liði Skjern skoraði Elvar Örn Jónsson átta mörk og var markahæstur í þeirra liði. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson þrjú mörk í markinu.

GOG er eftir sigurinn með 26 stig í 3. sæti deildarinnar á meðan Skjern er í því 5. með 23 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.