Körfubolti

Jón Axel og félagar fengu á sig sigurkörfu 0,7 sekúndum fyrir leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson var ískaldur í seinni hálfleik eins og liðsfélagar hans.
Jón Axel Guðmundsson var ískaldur í seinni hálfleik eins og liðsfélagar hans. Getty/Lee Coleman

Jón Axel Guðmundsson og félagar í Davidson töpuðu á grátlegan hátt í bandaríska körfuboltanum í nótt. Það var ekki nóg með að þeir misstu niður tuttugu stiga forskot heldur skoruðu mótherjarnir þeirra hálfgerða flautukörfu sem færði þeim sigurinn.

Davidson liðið varð þá að sætta sig við 72-73 tap fyrir Saint Joseph skólanum eftir að Cameron Brown setti niður þriggja stiga körfu 0,7 sekúndum fyrir leikslok.

Jón Axel Guðmundsson fann sig ekki í leiknum og klikkaði meðal annars á öllum þremur skotum sínum í seinni hálfleiknum sem Davidson liðið tapaði með tuttugu stiga mun.

Davidson var komið með 19 stiga forystu í hálfleik, 40-21, en Jón Axel var með 6 stig, 7 fráköst og og 2 stoðsendingar í þessum flotta fyrri hálfleik.

Það gekk hins vegar ekkert upp í seinni hálfleiknum sem Davidson tapaði 52-32. Davidson hitti aðeins úr 9 af 28 skotum sínum utan af velli og öll sjö þriggja stiga skotin rötuðu ekki rétta leið. Á sama tíma hittu leikmenn Saint Joseph's úr 9 af 15 þriggja stiga skotum sínum í hálfleiknum.

Jón Axel lék allar tuttugu mínúturnar en var 0 af 3 í skotum og náði ekki að gefa stoðsendingu.

Grindvíkingurinn endaði því leikinn með 6 stig og 2 stoðsendingar á 39 mínútum en tók 11 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×