Umfjöllun og viðtöl: Fram - Fjölnir 21-20 | Fram fjarlægist fallsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
vísir/bára

Fram vann í dag sterkan sigur á Fjölni 21-20 í Safamýrinni. Með sigrinum jók Fram forskot sitt á Fjölni í fimm stig, en Fjölnir á nú erfitt verkefni fyrir höndum ætli þeir sér að halda sér í deild þeirra bestu. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Bæði lið spiluðu þétta vörn en það sem einkenndi þennan leik voru allmargir tæknifeilar og tapaðir boltar.

Eins og komið hefur fram var leikurinn mjög jafn. Fram komst í 3-1 eftir fimm mínútur en sá munur hélst ekki lengi og Fjölnir jafnaði og komst svo yfir í fyrsta skipti eftir 20 mínútur. Þá náði Fram aftur þriggja marka forskoti en aftur náði Fjölnir að jafna og komast yfir. Staðan í hálfleik var svo 10-11 Fjölnismönnum í vil.

Í seinni hálfleik skiptust liðin aftur á að skora. Fram náði þriggja marka forskoti aftur þegar um korter var eftir. Þeir héldu því þangað til að rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum, en þá náði Fjölnir að minnka í eitt mark. Þegar um 40 sekúndur voru eftir tók Halldór leikhlé í stöðunni 21-20, þar sem hann ætlaði að teikna upp seinustu sóknina. Það fór þó ekki betur en svo að Fram tapaði boltanum þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka og Fjölnir fékk tækifæri til að stela stigi. Það gekk þó ekki upp hjá þeim þar sem að þeir töpuðu líka boltanum og eins marks sigur Fram því staðreynd.

Af hverju vann Fram?

Það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem leiddi til þess að Fram vann leikinn. Liðið spilaði þétta vörn og markvarslan var nokkuð góð. Þeir lentu í áfalli þegar að Lárus Helgi, markmaður, meiddist undir lok fyrri hálfleiks, en Valtýr kom sterkur inn og var með átta varða bolta.

Hverjir stóðu upp úr?

Markverðirnir í báðum liðum stóðu upp úr í dag. Markverðir Fram voru með um 37% vörslu og Bjarki Snær með 39% í marki Fjölnis. Ég má líka til með að hrósa Birgi Steini, vinstri skyttu Fjölnis. Hann skoraði 9 mörk úr 15 skotum í dag og var heilt yfir flottur. Í liði Fram var Andri Heimir atkvæðamestur í sókninni með 6 mörk úr 8 skotum og stóð vörnina vel.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að halda boltanum. Mjög mikið var um tæknifeila hjá báðum liðum og líklega vann það lið í dag sem gerði færri tæknifeila, þó að ég sé ekki alveg með talninguna á því á hreinu þá var það líklega raunin.

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð fær Fjölnir FH í heimsókn. FH er í bullandi baráttu um annað til sjöunda sæti þar sem er mikill pakki og aðeins fjögur stig sem skilja þar á milli. Það er því virkilega erfitt verkefni fyrir Fjölni sem er í fallsæti.

Fram heimsækir ÍR í næstu umferð. Fram er nú komið með smá andrými þar sem að þeir juku forskot sitt frá fallsæti. ÍR situr í öðru sæti og þeir ætla sér sigur og setja þar með pressu á Hauka sem eru þrem stigum fyrir ofan þá í efsta sætinu.

Halldór: Ég er búinn að hafa áhyggjur af tæknifeilum síðan ég byrjaði sem þjálfari

„Ég er bara gríðarlega ánægður að hafa unnið þennan leik og fá tvö stig. Búinn að brjóta ísinn með fyrsta sigrinum sem þjálfar Fram,“ sagði Halldór glaður eftir leik. „Bæði lið lögðu mikið í leikinn og við vorum að spila frábæra vörn,“ bætti hann svo við.

Hann segir að það hafi verið mjög mikilvægt að ná í þennan sigur.

„Við náum þarna að fjarlægjast Fjölni aðeins og þetta gefur okkur smá andrými, en það styttist aðeins í liðin fyrir ofan okkur, en við þurfum aðallega að hugsa um sjálfa okkur og það sem við erum að gera.“

Halldór segir að þessi leikur hafi verið mun betri en sá seinasti, sem var á móti Haukum og sagði að sennilega hefðu þeir unnið Haukana með þessum leik.

 

„Ég er auðvitað búinn að hafa áhyggjur af tæknifeilum síðan ég byrjaði sem þjálfari en ég hugsa að þeim sé að fækka og við verðum að vona að þeim fækki enn þá meira,“ sagði Halldór spurður út í þá fjölmörgu tæknifeila sem áttu sér stað í dag.

Fram lenti í áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Lárus Helgi, markmaður, fór meiddur út af. „Hann fór úr lið á þumli, fremst á kjúkunni, mér skildist að það sé sprunga í liðnum, við verðum bara að sjá til hvort það sé hægt að tjasla honum saman og láta hann spila,“ sagði Halldór og bætti við að það kemur bara maður í manns stað.

Kári: Það er fínt þegar að dómararnir eru að taka af manni mörk

„Ég er bara hrikalega svekktur,“ sagði Kári Garðarsson eftir tapið í dag. „Ég held að þetta sé fjórði leikurinn í röð þar sem við töpum með einu mark, þar sem við erum í svona lokakafla þar sem við náum ekki að fá nein stig út úr þessu en það er það sem þetta snýst um.“

Kári segir sína menn hafa verið með allt of marga tapaða bolta og mikið af slökum ákvörðunum í sóknarleiknum. „Það er mikið undir í þessum leik og þá verða leikirnir oft svona, það er lítið skor og varnirnar góðar og markvarslan fín, en við vorum ekki að finna nægjanlega góðar lausnir í sóknarleiknum.

Það urðu læti í lok leiks þar sem að dómararnir spiluðu sitt hlutverk. „Mér fannst þeir dæma þetta fínt í 57 mínútur og svo koma bara fjögur atriði í lokinn sem eru algjörlega ótrúleg, það eru bara fjögur atriði á okkur. Þeir stoppa tímann í hraðri af því að örvhenti hornamaðurinn þeirra sem er búinn að liggja eftir hvert einasta skot, og að lesa það ekki er alveg ótrúlegt,“ sagði Kári svekktur. „Þeir flauta of snemma í marki hjá okkur og það er gott í leik þar sem að skorið er svona lítið, það er þá fínt þegar að dómararnir eru að taka af manni mörk, og ég er ótrúlega ósáttur,“ bætti Kári við.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira