Körfubolti

Valsmenn fá til sín Íslandsmeistara úr Vesturbænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Atli Magnússon í leik með KR á móti Val fyrr á þessu tímabili.
Finnur Atli Magnússon í leik með KR á móti Val fyrr á þessu tímabili. Vísir/Vilhelm

KR-ingurinn Finnur Atli Magnússon ætlar að klára tímabilið með Valsmönnum og gæti mögulega spilað með Valsliðinu á móti Njarðvík í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld.

Finnur hefur verið að æfa með Valsliðinu að undanförnu og lagði inn félagsskipti áður en glugginn lokaðist. KKÍ hefur samt ekki staðfest félagsskipin inn á heimasíðu sinni.

Finnur Atli hefur spilað einn leik með KR-liðinu á tímabilinu en hann var með 7 stig og 3 fráköst á 14 mínútum í einmitt leik á móti Val í desember.

Finnur er 34 ára og 206 sentimetra framherji sem á að baki nítján A-landsleiki fyrir Ísland.

Finnur Atli ætti að styrkja Valsmenn enda reynslumikill leikmaður. Hann hefur verið að daðra við það að hætta síðustu ár en alltaf birst á vellinum þegar líður á tímabilið. Á því verður engin breyting nú.

Finnur Atli átti eftirminnilega innkomu í KR-liðið í úrslitakeppninni í fyrra og átti sinn besta leik þegar hann skoraði 15 stig í leiknum sem KR tryggði sér oddaleik um titilinn.

Hann spilaði tímabilin 2015-16, 2016-17 og 2017-18 með Haukum en er uppalinn hjá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×