Enski boltinn

Uppselt á leik Liverpool og Shrewsbury í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Curtis Jones er búinn að skora í báðum leikjum Liverpool í ensku bikarkeppninni á þessu tímabili.
Curtis Jones er búinn að skora í báðum leikjum Liverpool í ensku bikarkeppninni á þessu tímabili. Getty/Richard Heathcote

Það er mikill áhugi á leik Liverpool og Shrewsbury Town í enska bikarnum í kvöld þrátt fyrir að Liverpool tefli bara fram varaliði sínu.

Liverpool ákvað að bjóða helmingsafslátt á miðum á leikinn og það hafði góð áhrif því miðarnir á leikinn seldust upp.

Liverpool sagði frá því á Twitter-síðu sinni að miðar á leikinn séu uppseldir og biðlar til þeirra sem eiga ekki miða á leikinn að koma ekki á Anfield.



Liverpool komst í 2-0 í fyrri leiknum en Shrewsbury Town tókst að jafna metin í 2-2 og tryggja sér annan leik.

Sá leikur var settur á í vetrarfríi Liverpool liðsins og Jürgen Klopp tilkynnti strax eftir fyrri leikinn að leikmenn aðalliðsins tækju ekki þátt í þessum leik í kvöld.

Liverpool liðið verður því byggt upp á ungum leikmönnum úr 23 ára liðinu og Neil Critchley mun stýra liðinu í kvöld.

Þetta verður annar leikurinn sem Neil Critchley stýrir Liverpool á leiktíðinni því hann var líka við stjórnvölinn á móti Aston Villa í enska deildabikarnum þegar aðalliðið var komið til Katar til að taka þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Liðið sem vinnur leikinn í kvöld mætir Chelsea á Stamford Bridge í sextán liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×