Körfubolti

Friðrik Ingi: Allir leikir upp á líf og dauða núna

Ísak Hallmundarson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson. vísir/daníel

Haukar tóku á móti Þór Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í kvöld. Fóru leikar þannig að Haukar sigruðu 92-86.

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Þórs var í viðtali eftir leik og var auðvitað svekktur með tapið.

„Öll töp eru býsna svekkjandi. Mér fannst við eiga möguleika og vel það og við vorum að spila að mestu leyti mjög vel. Við misstum pínu taktinn í fjórða leikhluta og þeir komust á smá skrið og við misstum þá í aðeins of mikla forystu.“

Hann segist geta tekið margt jákvætt út úr þessum leik hinsvegar

„Heilt yfir samt var þetta besti leikurinn frá því við fengum tvo nýja leikmenn inn um áramót, þannig það er allavega eitthvað jákvætt sem við getum tekið úr þessum leik. Við erum aðeins að ná að spila betur saman bæði í vörn og sókn, það eru kannski ljósu punktarnir. Við vorum að spila betur núna en í undanförnum leikjum þó það hafi ekki skilað sigri og við þurfum bara að byggja ofan á það.“

Það eru mörg lið að berjast um sæti í úrslitakeppninni og áframhaldandi sæti í deildinni. Frikki segir hvern einasta leik skipta gríðarlega miklu máli:

„Það eru eiginlega allir leikir 4 stiga leikir. Lið geta færst upp og niður um sæti því það er ekkert sem skilur á milli. Það verður bráðfjörug lokasenan í þessu og eins og ég segi eru allir leikir nánast upp á líf og dauða.“

„Ætla lið að halda sér í deildinni, ætla þau í úrslitakeppni og í hvaða sætum? Og svo framvegis, það er stutt á milli og menn þurfa að vera vel gíraðir. Það sem ég segi við mína menn eftir þennan leik er að á meðan við erum að bæta okkur og verða kannski aftur eitthvað sem við viljum vera þá er það jákvætt og það er það sem við eigum að taka úr þessum leik.‘‘


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×