Fótbolti

Ronaldo fór á mikið flug eftir að Messi fékk Gullboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu á móti Parma í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu á móti Parma í gær. Getty/Marco Canoniero

Cristiano Ronaldo var frekar rólegur framan af tímabili með Juventus en frammistaða hans í síðustu leikjum hefur verið hreinlega mögnuð. Það lítur út fyrir að verðlaunahátíð í byrjun desember hafi eitthvað með þetta að gera.

Ronaldo skoraði bæði mörk Juventus í gær og tryggði liðinu ekki aðeins 2-1 sigur á Parma heldur einnig fjögurra stiga forskot á toppi Seríu A.

Ronaldo hefur þar með skorað ellefu mörk í síðustu sjö deildarleikjum og er orðinn næstmarkahæstur í deildinni.


Það er hægt að velta því fyrir sér hvað hafi kveikt svona í Portúgalanum fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan en það er eitt sem virðist blasa við.

Cristiano Ronaldo fór nefnilega á þetta flug um leið og Lionel Messi fékk sjötta Gullboltann frá France Football og var þar með búinn að fá einum Gullbolta meira á ferlinum en Ronaldo.

Lionel Messi fékk 686 stig í kjörinu eða meira en tvö hundruð stigum meira en Cristiano Ronaldo sem varð að sætta sig við þriðja sætið á eftir Virgil van Dijk.

Eftir kjörið talaði Messi meira segja um það að Sadio Mané hefði mátt vera ofar í kjörinu en hann var fjórði á eftir Ronaldo.

Kjörið var 2. desember og Cristiano Ronaldo ákvað að mæta ekki þegar hann frétti af því að hann myndi ekki vinna.

Cristiano Ronaldo skoraði í leik sínum 1. desember en var þá væntanlega búinn að ákveða það að mæta ekki á verðlaunhátíðina.

Áður en jólamánuðurinn gekk í garð þá var Ronaldo búinn að skora 6 mörk í 15 leikjum í deild og Meistaradeild. Ekkert skelfilegar tölur en ekkert í líkingu við það sem við eigum að venjast frá CR7.

Frá 1. desember síðastliðnum hefur enginn ráðið við kappann. Með mörkunum í gær hefur hann skorað 12 mörk í síðustu átta leikjum í Seríu A og Meistaradeild. Hann er búinn að skora í öllum átta leikjunum, þrennu í einum leikjanna og tvennu í tveimur.

Enn á ný lítur út fyrir að Cristiano Ronaldo sé að sanna sig enn á ný í samanburðinum við Lionel Messi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.