Fótbolti

Ronaldo fór á mikið flug eftir að Messi fékk Gullboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu á móti Parma í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu á móti Parma í gær. Getty/Marco Canoniero

Cristiano Ronaldo var frekar rólegur framan af tímabili með Juventus en frammistaða hans í síðustu leikjum hefur verið hreinlega mögnuð. Það lítur út fyrir að verðlaunahátíð í byrjun desember hafi eitthvað með þetta að gera.

Ronaldo skoraði bæði mörk Juventus í gær og tryggði liðinu ekki aðeins 2-1 sigur á Parma heldur einnig fjögurra stiga forskot á toppi Seríu A.

Ronaldo hefur þar með skorað ellefu mörk í síðustu sjö deildarleikjum og er orðinn næstmarkahæstur í deildinni.



Það er hægt að velta því fyrir sér hvað hafi kveikt svona í Portúgalanum fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan en það er eitt sem virðist blasa við.

Cristiano Ronaldo fór nefnilega á þetta flug um leið og Lionel Messi fékk sjötta Gullboltann frá France Football og var þar með búinn að fá einum Gullbolta meira á ferlinum en Ronaldo.

Lionel Messi fékk 686 stig í kjörinu eða meira en tvö hundruð stigum meira en Cristiano Ronaldo sem varð að sætta sig við þriðja sætið á eftir Virgil van Dijk.

Eftir kjörið talaði Messi meira segja um það að Sadio Mané hefði mátt vera ofar í kjörinu en hann var fjórði á eftir Ronaldo.

Kjörið var 2. desember og Cristiano Ronaldo ákvað að mæta ekki þegar hann frétti af því að hann myndi ekki vinna.

Cristiano Ronaldo skoraði í leik sínum 1. desember en var þá væntanlega búinn að ákveða það að mæta ekki á verðlaunhátíðina.

Áður en jólamánuðurinn gekk í garð þá var Ronaldo búinn að skora 6 mörk í 15 leikjum í deild og Meistaradeild. Ekkert skelfilegar tölur en ekkert í líkingu við það sem við eigum að venjast frá CR7.

Frá 1. desember síðastliðnum hefur enginn ráðið við kappann. Með mörkunum í gær hefur hann skorað 12 mörk í síðustu átta leikjum í Seríu A og Meistaradeild. Hann er búinn að skora í öllum átta leikjunum, þrennu í einum leikjanna og tvennu í tveimur.

Enn á ný lítur út fyrir að Cristiano Ronaldo sé að sanna sig enn á ný í samanburðinum við Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×