Agüero kom City til bjargar | Ótrúleg endurkoma Newcastle á Goodison Park

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sergio Agüero tryggði Manchester City 1-0 sigur í kvöld.
Sergio Agüero tryggði Manchester City 1-0 sigur í kvöld. vísir/getty

Fimm af sex leikjum ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld er nú lokið. Sergio Agüero tryggði Manchester City -1-0 sigur á Sheffield United. Moise Kean braut loks ísinn fyrir Everton sem komst í 2-0 gegn Newcastle United á heimavelli en gestirnir komu til baka og skoruðu tvívegis í uppbótartíma, lokatölur því 2-2 á Goodison Park. Þá unnu AFC Bournemouth og Aston Villa loks leik. Öll úrslit kvöldsins má finna í fréttinni.

Sergio Agüero tryggði City stigin þrjú
Fyrir leik Sheffield og Manchester City var það helst að frétta að Americe Laporte kom aftur inn í City liðið og Sergio Agüero tók sér sæti á varamannabekk liðsins. Heimamenn í Sheffield United hafa eflaust mætt kokhraustir til leiks en þeim hefur gengið ágætlega á heimavelli í vetur. Meðal annars unnið Arsenal og gert jafntefli við Manchester United. Þá tapaði liðið naumlega 1-0 gegn toppliði Liverpool eftir slæm mistök Dean Henderson markvarðar.

Henderson átti hins vegar frábæran leik í kvöld og hélt sínum mönnum inn í leiknum framan af. Á 19. mínútu varði hann meistaralega frá Raheem Sterling af stuttu færi eftir gott spil gestanna. Gestirnir fengu svo afbragðsfæri til að komast yfir á 36. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd. Gabriel Jesus fór á vítapunktinn en Henderson gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna örugglega. Spyrnan var ekki frábær en vel varið engu að síður. Staðan markalaus í hálfleik.

Fór það svo að staðan var markalaus í hálfleik og raunar allt þangað til varamaðurinn Sergio Agüero kom inn af bekknum á 68. mínútu leiksisn. Aðeins fimm mínútum síaðr hafði hann komið City yfir en hann skoraði með skoti af stuttu færi eftir frábæra sendingu De Bruyne. Var þetta 16. mark Argentínumannsins í vetur og 15. stoðsending De Bruyne í deildinni. Er þetta í þriðja skipti sem Belginn nær því, sem er met í úrvalsdeildinni.

Lokatölur 1-0 og City því með 54 stig í 2. sæti deildarinnar, 13 stigum á eftir Liverpool sem á tvo leiki til góða. Sheffield United eru sem fyrr í 7. sætinu með 33 stig.

Ótrúleg endurkoma Newcastle á Goodison Park
Það virtist sem Everton ætlaði að sigla þremur stigum þægilega í hús á heimavelli í kvöld. Liðið komst í 2-0 gegn Newcastle United þökk sé mörkum frá Moise Kean, hans fyrsta fyrir félagið, og Dominic Calvert-Lewin. Þannig var staðan allt þangað til í uppbótartíma þegar Florian Lejeune skoraði tvívegis fyrir gestina og tryggði þeim ótrúlegt 2-2 jafntefli.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahóp Everton í kvöld en hann er enn að glíma við meiðsli.

Eftir jafntefli kvöldsins eru liðin jöfn að stigum með 30 hvort í 11. og 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Önnur úrslit
AFC Bournemouth 3-1 Brighton & Hove Albion
Aston Villa 2-1 Watford
Crystal Palace 0-2 Southampton

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.