Handbolti

Guðjón Valur bætir fyrirliðamet Ólafs Stefánssonar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson hafa verið fyrirliðar íslenska landsliðsins í 48 leikjum.
Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson hafa verið fyrirliðar íslenska landsliðsins í 48 leikjum. SAMSETT/EPA

Guðjón Valur Sigurðsson mun setja enn eitt metið í kvöld þegar hann leiðir íslenska landsliðinu út á móti Svíum í lokaleik íslenska liðsins á Evrópumótinu í handbolta.

Þetta verður 49. leikur Guðjóns Vals sem fyrirliði íslenska landsliðsins á stórmótum og hann bætir þar með met Ólafs Stefánssonar.

Ólafur Stefánsson var fyrirliði í 48 leikjum Íslands á stórmótum sínum frá 2006 til 2012.

Guðjón Valur var fyrst fyrirliði í forföllum Ólafs Stefánssonar á EM 2006 og leysti Ólaf líka af í nokkrum leikjum á EM 2008 og HM 2011.

Fyrsta stórmót Guðjóns Vals sem aðalfyrirliða var EM í Serbíu 2012. Ólafur kom aftur í liðið á Ólympíuleikunum 2012 en Guðjón Valur hefur verið fyrirliði íslenska liðsins frá 2013 með einni undantekningu. Guðjón missti af HM í fyrra og þá tók Aron Pálmarsson við fyrirliðabandinu.

Ólafur Stefánsson hafði slegið met Dags Sigurðssonar á ÓL í London eftir að hafa jafnað það á HM í Svíþjóð 2011. Dagur tók metið af Geir Sveinssyni átta árum fyrr eða á EM 2004.

Flestir leikir sem fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins á stórmótum:
48 leikir - Ólafur Stefánsson
48 leikir - Guðjón Valur Sigurðsson
43 leikir - Dagur Sigurðsson
30 leikir - Geir Sveinsson
13 leikir - Þorgils Óttar Mathiesen
12 leikir - Þorbjörn Jensson
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.