Handbolti

Portúgalar sendu Slóvena í undanúrslit og endanlega ljóst að Ísland nær ekki Ólympíusæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Potúgalinn Alexandre Cavalcanti fagnar marki á móti Ungverjum í dag.
Potúgalinn Alexandre Cavalcanti fagnar marki á móti Ungverjum í dag. EPA-EFE/ANDREAS HILLERGRE

Portúgalar tryggði sér leik um fimmta sætið og sendu Slóvena í undanúrslitin á Evrópumótinu í handbolta með því að vinna átta marka sigur á Ungverjum í fyrsta leik dagsins í milliriðli Íslands. Þessi úrslit þýða jafnframt það að það er endanlega ljóst að Ísland kemst ekki í umspil um sæti á Ólympíuleikum.

Portúgal vann leikinn 34-26 eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16-14. Portúgalar spila við Þjóðverja um fimmta sætið og eru komnir í Ólympíuforkeppnina.

Ungverjar áttu enn möguleika á því að komast í undanúrslit því ef þeir hefðu unnið og Norðmenn svo unnið Slóvena þá hefðu Ungverjar komist áfram á kostnað Slóvena.

Leikur Noregs og Slóvena á eftir verður því leikur upp á sigur í þessum milliriðli en báðar þjóðir eru öruggar um að spila um verðlaun.

Þessi úrslit þýða líka að íslenska liðið getur ekki lengur hækkað sig í töflunni og náð fjórða sætinu. Um leið fór síðasti möguleiki Íslands á að komast inn í umspil um sæti á Ólympíuleikum. Vinni Íslands Svíþjóð lenda strákarnir í fimmta sæti en Svíar komast upp fyrir íslenska liðið með sigri.

Vinni Ísland leikinn við Svíana verða Ísland, Portúgal og Ungverjaland öll jöfn að stigum en Ísland er með lakasta innbyrðis árangurinn vegna sex marka taps liðsins fyrir Ungverjum í lokaleik riðlakeppninnar.

Spánverjar tryggðu sér efsta sætið í hinum milliriðlinum með því að gera 22-22 jafntefli við Króatíu en báðar þjóðir voru öruggar um sæti í undanúrslitunum.

Spánverjar voru 20-14 yfir en þá kom 8-1 sprettur hjá Króötum sem komust í 22-21 þegar tvær mínútur voru eftir. Spánverjar náðu að jafna metin og tryggja sér um leið sigur í riðlinum.

Noregur og Slóvenía geta því í raun valið sér mótherja í leik sínum á eftir. Það lið sem vinnur leikinn mætir Króatíu en það lið sem tapar spilar við Evrópumeistara Spánverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×