Handbolti

Norðmenn kvöddu Malmö með enn einum sigrinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Gulliksen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk.
Kevin Gulliksen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk. vísir/epa

Noregur tryggði sér sigur í milliriðli II á EM 2020 með sigri á Slóveníu, 33-30. Norðmenn hafa unnið alla sjö leiki sína á EM.

Bæði lið voru komin áfram í undanúrslit og þjálfarar þeirra nýttu tækifærið og leyfðu minni spámönnum að spreyta sig.

Norðmenn voru marki yfir í hálfleik, 14-13. Í seinni hálfleik náðu þeir mest sex marka forskoti en Slóvenar gáfust ekki upp.

Þeir breyttu stöðunni úr 29-23 í 30-29 og hleyptu mikilli spennu í leikinn. Nær komst Slóvenía hins vegar ekki og Noregur vann þriggja marka sigur, 33-30.

Kevin Gulliksen skoraði sjö mörk fyrir norska liðið og þeir Eivind Tangen og Sander Overjordet sitt hvor fimm mörkin. Tilen Kodrin og Nejc Cehte skoruðu fimm mörk hvor fyrir slóvenska liðið.

Slóvenar fóru illa að ráði sínu á vítalínunni og klúðruðu fimm vítaköstum í leiknum. Espen Christensen, markvörður Norðmanna, varði fjögur víti.

Noregur mætir Króatíu í undanúrslitum í Stokkhólmi á föstudaginn. Slóvenía mætir hins vegar Spáni.



Í milliriðli I gerðu Hvíta-Rússland og Austurríki jafntefli, 36-36.

Austurríkismenn enduðu í 4. sæti milliriðils I en Hvít-Rússar í því fimmta.

Mikita Valipau skoraði tólf mörk fyrir Hvíta-Rússland og Artsem Karalek sjö. Nikola Bilyk og Sebastian Frimmel skoruðu sex mörk hvor fyrir Austurríki. Bilyk skoraði jöfnunarmark Austurríkismanna þegar þrjár sekúndur voru eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×