Körfubolti

ÍA sektað vegna stuðningsmanns sem réðist á leikmenn Njarðvíkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty

Körfuknattleikssamband Íslands hefur sektað ÍA um 50.000 krónur vegna háttsemi stuðningsmanns liðsins í leik gegn Njarðvík í bikarkeppni 10. flokks karla. Leikurinn fór fram á Akranesi 15. janúar síðastliðinn.

Stuðningsmaður ÍA byrjaði á því að trufla leikmann Njarðvíkur þegar hann var á vítalínunni undir lok leiks. Strákurinn brenndi af vítinu en ákveðið var að endurtaka það.

Eftir leikinn hljóp áhorfandinn að varamannabekk Njarðvíkur og hrinti leikmanni liðsins sem stóð uppi á stól. Var sá heppinn að meiðast ekki.

Stuðningsmaðurinn var ekki hættur og hélt áfram að ýta við leikmönnum og þjálfara Njarðvíkur þar til formaður ÍA dró hann í burtu.

Í athugasemd frá ÍA sem barst aga- og úrskurðarnefnd KKÍ kemur fram að félagið harmi atvikið og stuðningsmaðurinn hafi strax um kvöldið haft samband við formann KKÍ og beðist afsökunar á framferði sínu.

Aga- og úrskurðarnefnd taldi háttsemi stuðningsmannsins mjög alvarlega og sektaði ÍA um 50.000 krónur og auk þess að áminna félagið.

Úrskurðinn má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×