Enski boltinn

Bobby skorar bara á útivelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino fagnar sigurmarki sínu í gær.
Roberto Firmino fagnar sigurmarki sínu í gær. Getty/Andrew Powell

Roberto Firmino sá til þess að sigurganga Liverpool hélt áfram í gær þegar hann skoraði sigurmarkið á móti Wolverhampton Wanderers þegar aðeins sex mínútur voru eftir af leiknum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bobby Firmino kemur sterkur inn í útileikjum Liverpool á þessu tímabili.

Bobby skorar nefnilega bara á útivelli því öll átta deildarmörk hans á leiktíðinni hafa komið utan Anfield.



Hann hefur skorað á Mary’s, Turf Moor, Stamford Bridge, Selhurst Park, King Power, Tottenham Hotspur Stadium og Molineux en ekki á Anfield.

Þetta var þriðja sigurmark Firmino í útileikjum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og alls hafa mörk hans á útivelli skilað Liverpool tíu aukastigum.

Firmino hefur skorað þessi átta útivallarmörk í ellefu útileikjum en er markalaus í tólf deildarleikjum sínum á Anfield.



Það má síðan ekki gleyma því að það var einmitt Bobby Firminos sem skoraði sigurmarkið í báðum leikjum Liverpool í heimsmeistarakeppni félagsliða sem fór einmitt fram í Katar.

Firmino skoraði þá sigurmarkið í framlengingu í 2-1 sigri á Monterrey í undanúrslitunum og svo eina markið í úrslitaleiknum á móti Flamengo en það mark kom líka í framlengingu.

Þetta þýðir að öll tíu mörk Bobby Firmino í öllum keppnum á tímabilinu hafa komið utan Liverpool-borgar.



Mörkin hjá Bobby Firmino 2019-20 og mikilvægi þeirra

Sigurmark á móti Wolves í 2-1 sigri [+2 stig]

Sigurmark á móti Tottenham í 1-0 sigri [+2 stig]

Tvö mörk á móti Leicester í 4-0 sigri

Sigurmark á móti Crystal Palace í 2-1 sigri [+2 stig]

Seinna markið á móti Chelsea í 2-1 sigri [+2 stig]

Þriðja markið á móti Burnley í 3-0 sigri

Seinna markið á móti Southampton í 2-1 sigri [+2 stig]

+

Sigurmark á móti Monterrey í 2-1 sigri

Sigurmark á móti Flamengo í 1-0 sigri

Mörk á heimavelli: 0 mörk í 16 leikjum í öllum keppnum

Mörk á útivelli: 10 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×