Körfubolti

„Það sem er í gangi hjá Grindavík er á mörkum þess að vera sorglegt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Grindavík tapaði fyrir Njarðvík, 101-75, í Domino's deild karla á fimmtudaginn. Þetta var fimmta tap Grindvíkinga í röð og ljóst að staðan á þeim bænum hefur oft verið betri.

Eftir leikinn gegn Njarðvík talaði Daníel Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, um að hans menn fylgdu ekki leikáætluninni.

„Hann er búinn að tala um þetta í viðtölum í hvert einasta skipti. Þeir fylgja aldrei leikplani,“ sagði Sævar Sævarsson í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

Því næst fóru sérfræðingarnir yfir óagaðan og óskipulagðan sóknarleik Grindvíkinga.

„Það sem er í gangi þarna er á mörkum þess að vera sorglegt,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson og furðaði sig á mörgum ákvörðun Sigtryggs Arnars Björnssonar.

„Hvað er hann að gera? Hvað hefur Sigtryggur Arnar gert fyrir þetta lið? Hann er væntanlega að fá töluvert mikið greitt fyrir að spila þarna. Það er kjánalegt að horfa á þetta.“

Jonni segir að ekki sé hægt að skella skuldinni alfarið á Daníel.

„Það er alveg sama hvað tautar og röflar um þjálfara Grindavíkur, ég veit að hann er mjög fær í því þegar kemur að leikskipulagi. Ég get lofað ykkur því að það sem Grindavík er að framkvæma þarna hefur akkúrat ekkert með leikskipulag að gera,“ sagði Jonni.

„Ef menn ætla að fela sig á bak við að hann sé ekki með þetta og ráði ekki við verkefnið, nenni ég ekki að hlusta á það.“

Jonni spáði því svo að Daníel yrði látinn fara frá Grindavík áður en langt um líður.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.