Handbolti

15. janúar í stórmótasögu Íslands: Strákarnir hafa ekki tapað á þessum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Túnisbúinn Oussama Boughanmi og Björgvin Páll Gústavsson í síðasta leik íslenska landsliðsins sem fór fram 15. janúar.
Túnisbúinn Oussama Boughanmi og Björgvin Páll Gústavsson í síðasta leik íslenska landsliðsins sem fór fram 15. janúar. EPA/GUILLAUME HORCAJUELO

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur fjórum sinnum áður spilað leik í stórmóti 15. janúar, þrisvar á heimsmeistaramóti og einu sinni á Evrópumóti.

Íslensku strákarnir spila í dag lokaleik sinn í riðlinum og mótherjarnir eru Ungverjar.

Það hefur gengið mjög vel á þessum degi í gegnum tíðina því íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur aldrei tapað stórmótaleik 15. janúar.

Þrír leikjanna hafa unnist og einn endaði með jafntefli. Sigurleikirnir komu á móti Brasilíu á Hm í Svíþjóð 2011, á móti Makedóníu á HM 2013 og á móti Noregi á EM í Póllandi 2016. Jafnteflisleikurinn var á móti Túnis á HM í Frakklandi 2017.

Ísland vann 35-25 sigur á Brasilíu 15. janúar 2011 á HM í Svíþjóð. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með ellefu mörk en Alexander Petersson skoraði sjö mörk.

Ísland vann 23-19 sigur á Makedóníu 15. janúar 2013 á HM á Spáni. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk. Þórir Ólafsson og Aron Pálmarsson skoruðu báðir fimm mörk.

Ísland vann 26-25 sigur á Noregi 15. janúar 2016 á EM í Póllandi. Aron Pálmarsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk, Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skot.

Ísland gerði 22-22 jafntefli við Túnis 15. janúar 2017 á HM í Frakklandi. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk en þeir Rúnar Kárason og Ómar Ingi Magnússon skoruðu báðir fjögur mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot í markinu.

Þrír mismunandi þjálfarar hafa stýrt íslenska liðinu í þessum fjórum leikjum, Aron Kristjánsson (2 leikir), Geir Sveinsson og Guðmundur Guðmundsson en Guðjón Valur Sigurðsson var fyrirliði í þeim öllum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.