Handbolti

Norðmenn léku sér að Ungverjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sagosen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk.
Sagosen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk. vísir/epa

Norðmenn rúlluðu yfir Ungverja, 36-29, þegar liðin mættust í milliriðli II á EM í handbolta í dag.


Noregur hefur unnið alla leiki sína á EM og eru með fjögur stig í milliriðlinum. Ungverjaland er með tvö stig.

Norðmenn byrjuðu leikinn miklu betur, skoruðu fyrstu fjögur mörkin og eftir tíu mínútur var staðan 9-2, Noregi í vil.

Eftir rúmar 17 mínútur var munurinn orðinn tíu mörk, 15-5. Norðmenn leiddu svo í hálfleik, 20-12. Noregur skoraði því fleiri mörk í fyrri hálfleik en Ísland gerði í öllum leiknum gegn Ungverjalandi á miðvikudaginn.

Seinni hálfleikurinn var óspennandi enda úrslitin svo gott sem ráðin.

Ungverjar minnkuðu muninn í fjögur mörk, 23-19, en Norðmenn svöruðu með 5-1 kafla og náðu heljartaki á leiknum. Á endanum munaði svo sjö mörkum á liðunum, 36-29.

Sander Sagosen skoraði sjö mörk fyrir Noreg og Göran Johannessen sex.

Bence Nagý og Patrik Ligetvari skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ungverjaland.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.