Körfubolti

KR, Haukar og Valur flugu inn í undanúrslitin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helena Sverrisdóttir gerði 23 stig í liði Vals í kvöld.
Helena Sverrisdóttir gerði 23 stig í liði Vals í kvöld. Vísir/Bára

Alls fóru þrír leikir fram í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í kvöld. KR lagði Keflavík með 22 stiga mun, 82-60. Valur valtaði yfir Breiðablik á Hlíðarenda, 89-59. Þá unnu Haukar öruggan sigur á Grindavík, lokatölur 81-54.

Í Keflavík voru það gestirnir úr Vesturbænum sem stjórnuðu ferðinni frá upphafi til enda. Leikurinn náði því miður aldrei flugi en hálfleikstölur voru 44-19 KR í vil eftir að gestirnir skoruðu fyrstu 20 stig leiksins. Á endanum vann KR 22 stiga sigur en leiknum lauk 82-60. Hildur Björg Kjartansdóttir átti að venju frábæran leik en hún gerði 23 stig fyrir KR, þá var Danielle Rodriguez með 17. Hjá Keflavík voru Daniela Wallen og Þóranna Kika Hodge-Carr með 12 stig hvor.



Á Hlíðarenda var Breiðablik í heimsókn hjá ríkjandi bikarmeisturum Vals. Þar voru leikar í járnum framan af en í síðari hálfleik tóku Valsstúlkur til sinna ráða og keyrðu yfir gestina, þá sérstaklega í 4.  leikhluta sem þær unnu með 22 stiga mun, 34-14.

Lokatölur á endanum 89-59 fyrir Val sem eru til alls líklegar í bikarkeppninni. Þær Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Helena Sverrisdóttir gerðu 23 stig hvor fyrir Val á meðan Danni Williams gerði einnig 23 stig í liði Breiðabliks.

Í Hafnafirði völtuðu Haukar yfir Grindavík í fyrri hálfleik áður en þær slökuðu á klónni í þeim seinni. Munurinn í hálfleik var 28 stig en heimastúlkur voru þá 50-22 yfir. Gestirnir úr Grindavík áttu aðeins auðveldara með að skora í síaðri hálfleik sem og þeim tókst að halda Haukum í 31 stigi en lokatölur leiksins voru 81-54 Haukum í vil.

Þóra Kristín Jónasdóttir var stigahæst í liði Hauka með 24 stig og þar á eftir kom Lovísa Björt Henningsdóttir með 17 stig. Hjá Grindavík var Bríet Sif Hinriksdóttir með 13 stig.

ÍR og Skallagrímur mætast í Breiðholti klukkan 19:15 annað kvöld í fjórða og síðasta leik 8-liða úrslita bikarkeppni kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×