Körfubolti

KR, Haukar og Valur flugu inn í undanúrslitin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helena Sverrisdóttir gerði 23 stig í liði Vals í kvöld.
Helena Sverrisdóttir gerði 23 stig í liði Vals í kvöld. Vísir/Bára

Alls fóru þrír leikir fram í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í kvöld. KR lagði Keflavík með 22 stiga mun, 82-60. Valur valtaði yfir Breiðablik á Hlíðarenda, 89-59. Þá unnu Haukar öruggan sigur á Grindavík, lokatölur 81-54.

Í Keflavík voru það gestirnir úr Vesturbænum sem stjórnuðu ferðinni frá upphafi til enda. Leikurinn náði því miður aldrei flugi en hálfleikstölur voru 44-19 KR í vil eftir að gestirnir skoruðu fyrstu 20 stig leiksins. Á endanum vann KR 22 stiga sigur en leiknum lauk 82-60. Hildur Björg Kjartansdóttir átti að venju frábæran leik en hún gerði 23 stig fyrir KR, þá var Danielle Rodriguez með 17. Hjá Keflavík voru Daniela Wallen og Þóranna Kika Hodge-Carr með 12 stig hvor.


Á Hlíðarenda var Breiðablik í heimsókn hjá ríkjandi bikarmeisturum Vals. Þar voru leikar í járnum framan af en í síðari hálfleik tóku Valsstúlkur til sinna ráða og keyrðu yfir gestina, þá sérstaklega í 4.  leikhluta sem þær unnu með 22 stiga mun, 34-14.

Lokatölur á endanum 89-59 fyrir Val sem eru til alls líklegar í bikarkeppninni. Þær Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Helena Sverrisdóttir gerðu 23 stig hvor fyrir Val á meðan Danni Williams gerði einnig 23 stig í liði Breiðabliks.

Í Hafnafirði völtuðu Haukar yfir Grindavík í fyrri hálfleik áður en þær slökuðu á klónni í þeim seinni. Munurinn í hálfleik var 28 stig en heimastúlkur voru þá 50-22 yfir. Gestirnir úr Grindavík áttu aðeins auðveldara með að skora í síaðri hálfleik sem og þeim tókst að halda Haukum í 31 stigi en lokatölur leiksins voru 81-54 Haukum í vil.

Þóra Kristín Jónasdóttir var stigahæst í liði Hauka með 24 stig og þar á eftir kom Lovísa Björt Henningsdóttir með 17 stig. Hjá Grindavík var Bríet Sif Hinriksdóttir með 13 stig.

ÍR og Skallagrímur mætast í Breiðholti klukkan 19:15 annað kvöld í fjórða og síðasta leik 8-liða úrslita bikarkeppni kvenna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.