Heimsmarkmiðin

Ísland styður við aukið aðgengi að orku í Malaví

Heimsljós kynnir
©GIZ/EnDev Project

Stefnt er að því að veita 24 þúsund einstaklingum í Malaví aðgang að rafmagni frá sólarrafhlöðum á næstu þremur árum í nýju samstarfsverkefni Íslendinga og Þjóðverja um að auka aðgengi að orku í Mangochi héraði.„Aðgengi að orku og rafmagni sérstaklega er grundvallaratriði í sjálfbærri þróun samfélaga og það er mjög ánægjulegt fyrir Ísland að leggja lóð sitt á vogarskálarnar í því að auka aðgengi að orku í Malaví. Á síðasta ári var 30 ára samstarfsafmæli þróunarsamvinnu Íslands og Malaví. Á þeim tíma hefur Ísland unnið á sviði fiskveiða, heilsugæslu og bættri lýðheilsu, grunnmenntun og aukið aðgang að hreinu vatni og salernisaðstöðu í Mangochi héraði – og nú bætist aðgangur að orku í þessa flóru þróunarverkefna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.Í þeirri viðleitni til að auka aðgang að orku, efla skilvirkni orku og auka notkun endurnýjanlegrar orku í Mangochi-héraði var af hálfu sendiráðs Íslands í Lilongwe nýverið skrifað undir þriggja ára samstarfssamning við Energising Development (EnDev), verkefnastoð þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (GIZ).

©GIZ/EnDev Project

Að sögn Lilju Dóru Kolbeinsdóttur forstöðukonu í sendiráðinu verða 98 milljónir íslenskra króna lagðar í verkefnið. „Það á að auka eftirspurn og notkun á orkusparandi eldstæðum og auka útbreiðslu og notkun á sólarrafhlöðum til rafmagnsframleiðslu, bæði til einkanotkunar og notkunar í skólum, heilsugæslustöðvum og fyrirtækjum í héraðinu,“ segir hún.Aldrei hafa jafn margir jarðarbúar haft aðgang að rafmagni eins og nú. Enn skortir þó einum af hverjum fimm jarðabúum aðgang að nútímalegu og áreiðanlegu orkuneti og þjónustu og þrír milljarðar manna reiða sig á við, kol, viðarkol eða tað til að elda og hita heimili sín. Í sjöunda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna felst að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði fyrir árið 2030. Til að það markmið náist þarf enn að ná til um milljarðs manna, en níu af hverjum tíu þeirra búa í ríkjum í sunnanverðri Afríku.Malaví er eitt fátækasta ríki heims og elsta núverandi samstarfsland Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þar búa tæplega 18 milljónir manna og fjölgar ört í landi sem er að flatarmáli litlu stærra en Ísland.

Orkusparandi eldstæði.©GIZ/EnDev Project:

„Fáar þjóðir eru jafn illa staddar og Malavar hvað varðar aðgang að orku til rafmagnsframleiðslu. Rúmlega ellefu prósent landsmanna hafa aðgang að rafmagni og flestir þeirra búa í borgum landsins. Raforkan er fengin úr einu vatnsaflsvirkjun landsins sem framleiðir um 384 megavött á ári eða sem nemur hálfri Kárahnjúkavirkjun. Virkjun sólarorku til rafmagnsframleiðslu hefur hins vegar tvöfaldast í landinu á síðastliðnum áratug og þar liggur helsti vaxtarbroddurinn í orkuframleiðslu. Dagsdaglega þarf hinn almenni Malavi að nýta við, kol, viðarkol eða tað til að elda og hita húsnæði sitt en kolin eru framleidd úr trjám á einkar ósjálfbæran hátt. Afleiðingar þess að margar milljónir manna eru háðar því að nota jarðefni til að reka heimili hefur stuðlað að miklu niðurbroti skóga og skógareyðingu, sem er um 2,6% á ári. Eldiviður er auk þess aðallega notaður á opnum steinhlöðnum eldstæðum sem notaðar eru jafnt í sveitum sem og þéttbýli og borgum. Fyrir utan að vera óhagkvæmur hitagjafi sem stuðlar að eyðingu mikilvægra skógarauðlinda, þá gefur brennandi viður á opnum eldstóðum frá sér mikinn og heilsuspillandi reyk sem fer illa með öndunarfæri þeirra sem elda mest og eru oftast við eldhúsin – aðallega konur og börn,“ segir Lilja Dóra.Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.