Enski boltinn

Internazionale að safna Manchester United leikmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Young er aðalfyrirliði Manchester United en gæti verið á förum.
Ashley Young er aðalfyrirliði Manchester United en gæti verið á förum. Getty/Visionhaus

Ashley Young er í viðræðum við ítalska félagið Internazionale frá Mílanó um að ganga til liðs við félagið.

Enskir miðlar segja frá þessu í morgun en þar kemur ekki fram hvort að Manchester United sé búið að ákveða að leyfa leikmanninum að fara.

Framtíð þessa 34 ára leikmanns mun væntanlega ráðast á næsta sólarhring.

Forráðamenn Internazionale virðast vera að safna Manchster United leikmönnum því félagið keypti Romelu Lukaku í haust og fékk þá líka Alexis Sánchez á láni.



Samningur Ashley Young við Manchester United rennur út í sumar og þessa vegna hefur hann leyfi núna til að ræða við félög utan Englands.

Young var ekki í hópnum í leiknum á móti Manchester City í enska deildabikarnum í gærkvöldi og knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær vildi ekki ræða stöðu leikmannsins eftir leikinn.



Ashley Young kom til Manchester United frá Aston Villa árið 2011 og hefur unnið ensku deildina, enska bikarinn og enska deildabikarinn með félaginu. Hann hefur líka verið aðalfyrirliði Manchester United frá því í ágúst 2019.

Young hefur samt ekki verið mikið með fyrirliðabandið að undanförnu því hann hefur aðeins byrjað tvo af síðustu tóu deildarleikjum Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×