Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KR 83-75 | Hafnfirðingar afgreiddu meistaranna

Ísak Hallmundarson skrifar
vísir/bára

Haukar tóku á móti KR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Fyrir leikinn voru Haukar í 6. sæti en Íslandsmeistarar KR í 5. sæti og var því mikið í húfi.

Það voru á endanum Hafnfirðingar sem höfðu betur og unnu nokkuð sannfærandi sigur, 83-75.

KR-ingar byrjuðu betur fyrstu mínúturnar og komust í 7-2 forystu. Eftir það skoruðu Haukar 12 stig í röð og var staðan að loknum fyrsta leikhluta 21-20 heimamönnum í vil.

KR náðu mest að minnka muninn í eitt stig í öðrum leikhluta en þá tóku Haukar völdin á vellinum og náðu 9 stiga forystu, 36-27.

Vesturbæingarnir náðu síðan aðeins að rétta úr kútnum áður en flautað var til hálfleiks, staðan í hálfleik 39-35 fyrir Haukaliðinu. Gerald Robinson fór á kostum í öðrum leikhluta og var með 16 stig í hálfleik.

Hafnarfjarðarliðið byrjaði svo seinni hálfleikinn mun betur og jók jafnt og þétt forskot sitt. Þeir náðu mest 13 stiga forskoti, 59-46, en þá skoruðu KR síðustu 5 stig leikhlutans. Staðan 59-51 Haukum í vil fyrir lokaleikhlutann.

KR-ingar virtust ætla að gera þetta spennandi um miðjan 4. leikhluta þegar þeir minnkuðu muninn í fjögur stig, en nær komust þeir ekki. Haukar komust aftur 13 stigum yfir en KR-ingar náðu síðan að minnka muninn í 6 stig, 81-75, þegar um 40 sekúndur voru eftir.

Lokatölur urðu 83-75 fyrir heimamönnum í Haukum. Gerald Robinson var vísað út úr húsi þegar um mínúta var eftir fyrir gróft brot á Matthíasi Orra Sigurðarsyni.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

KR-ingar virkuðu þreyttir og ólíkir sjálfum sér. Þeir reyndu erfiða hluti í sókninni, töpuðu mörgum boltum og gáfu auðveldar körfur. Það væri samt líka hægt að tala um að Haukar hafi spilað góða vörn á KR og sett leikinn rétt upp. Stigaskorið dreifðist frekar jafnt hjá sigurliðinu þannig að það er ekki hægt að nefna einhvern einn leikmann sem vann þennan leik fyrir þá.

Bestu menn vallarins

Það er erfitt að segja til um það þar sem að stigaskor beggja liða dreifðist frekar jafnt. Gerald Robinson fær klárlega atkvæði fyrir fyrri hálfleikinn en Emil Barja skilaði líklega mestu jafnt og þétt yfir allan leikinn. Emil var með 15 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Flenard Whitfield var stigahæstur með 22 stig og 12 fráköst. Ég ætla að gefa Emil þetta þar sem hann fór illa með sína fyrrum félaga og skilaði góðu framlagi út um allan völl.

Hvað gerist næst?

Eftir þennan leik hafa Haukar jafnað KR að stigum en staða liðanna í deildinni helst óbreytt. Næsta verkefni Íslandsmeistara KR verður að fara til Akureyrar og spila leik sem átti að fara fram í desember en var frestað. Þór Akureyri hefur verið í góðum gír undanfarið og því alls ekki auðvelt verkefni fyrir KR að fara norður. Haukar fara til Grindavíkur í næstu umferð en Haukunum hefur gengið illa á útivöllum í vetur og því verður áhugavert að sjá hvort þeir nái að rífa sig upp úr því.

Martin: Vinnum að því í hverri viku að verða betri

Israel Martin þjálfari Hauka var ánægður að leikslokum:

„Við vinnum að því í hverri viku að verða betra lið. Það var mjög vel gert hjá okkur varnarlega í dag að halda þeim í 75 stigum. Ég sé það að við getum spilað svona góða vörn eins og í dag og vorum að frákasta vel. Við vorum með yfir 20 fráköstum meira en KR sem var mikilvægt í leiknum.‘‘

„Ég vil sérstaklega óska leikmönnum mínum til hamingju með þennan sigur. Ég er nýr þjálfari hérna og við erum að reyna að venjast hvorum öðrum, ég held að leikmennirnir hafi fulla trú á þessu verkefni og er að sjálfsögðu mjög sáttur með sigurinn í kvöld.‘‘

Ingi: Ég er bara hundfúll

Ingi Þór Steinþórsson var ekki ánægður með sitt lið í kvöld.

„Ég er bara hundfúll. Við komum ótrúlega slappir til leiks og vorum með 12 tapaða bolta í fyrri hálfleik. Sumt af því algerlega óþvingaðir boltar. Ég var líka ósáttur hvað við leyfðum þeim alltof auðveldlega að komast á hringinn.‘‘

KR-ingar virkuðu þreyttir og ólíkir sjálfum sér í leiknum.

„Mér fannst líkamstjáningin á töpuðum boltum í fyrri hálfleik andleysi og ekkert annað. Ég veit ekki hvort menn bjuggust við því að við myndum valta yfir Haukanna eftir góðan sigur í Grindavík, Haukarnir eru hörkulið á heimavelli. Ég er mjög svekktur, margt sem ég var ósáttur við í dag og þar á meðal mig sjálfan,‘‘ sagði Ingi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira