Skoðun

Sofandi og ráðalaus: 4 punktar

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

1. Sáralítið mat hefur verið lagt á hvað opnun landsins þýddi í raun, og hver væri ábatinn, kostnaðurinn og áhættan. Um þetta eru flestir sammála nema ráðherrarnir sem áttu að vinna vinnuna sína. Hver erlendur ferðamaður skilar að jafnaði um 240.000 kr. í útflutningsverðmæti. Í júlí voru um 50 þúsund erlendir farþegar. Þetta þýðir 12 milljarða útflutningstekjur og af því er þjóðhagslegur ávinningur um 5 milljarðar. Í öllu samhengi er þetta mjög lág upphæð. Til samanburðar eyða Íslendingar í venjulegu árferði um 17 milljörðum erlendis í hverjum mánuði.

2. Á sama tíma og við erum upplifa dýpstu kreppu okkar í 100 ár og í raun að kljást við eitt stærsta úrlausnarefni aldarinnar er ríkisstjórnin sofandi í aftursætinu. Öllum ákvörðunum er skotið til þríeykisins sem hefur sóttvarnarhlutverki að gegna og gegna þau því hlutverki af prýði. Þríeykið á hins vegar ekki að sinna öðrum hlutverkum. Þau hlutverk liggja hjá ráðherrunum en þar er máttleysið algert. Á sama tíma búa skólar, aldraðir, foreldrar, heimili, menningarlífið, veitingastaðir, íþróttastarf og atvinnulífið við endurtekna óvissu og ráðleysi í boði ríkisstjórnarinnar.

3. Hvert er eiginlega planið hjá þessari ríkisstjórn? Forsætisráðherrann sagði nýlega að „meginmarkmið“ ríkisstjórnarinnar sé að tryggja „stöðugleika í stjórnarfari“ sem þýðir á mannamáli: Markmið okkar er að halda ráðherrastólunum. Annað er ekki að frétta.

4. Ég er lengi búinn að kalla til dæmis eftir fjárfestingaráætlun við þessar aðstæður. Það var gert í síðasta hruni en ekkert bólar á slíku núna. Einungis á þessu ári hafa 20.000 störf bókstaflega horfið úr íslensku hagkerfi. Þetta eru fleiri störf en eru samanlagt á öllu Austurlandi, Vestfjörðum og Akureyri.

Hvernig er ríkisstjórnin að bregðast við þessari stöðu? Hvar er verið að bregðast við breyttu hagkerfi? Og af hverju er þessi ríkisstjórn aldrei undirbúin?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×