Körfubolti

Shaq er með minnisvarða um Kobe heima hjá sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaquille O'Neal og Kobe Bryant komu báðir til Los Angeles Lakers 1996. Þeir urðu þrisvar sinnum NBA-meistarar saman með liðinu.
Shaquille O'Neal og Kobe Bryant komu báðir til Los Angeles Lakers 1996. Þeir urðu þrisvar sinnum NBA-meistarar saman með liðinu. getty/Wally Skalij

Shaquille O'Neal er með minnisvarða um Kobe Bryant heitinn heima hjá sér.

Shaq og Kobe léku saman hjá Los Angeles Lakers á árunum 1996-2004 og urðu þrisvar sinnum NBA-meistarar með liðinu.

Í myndsímtali við Entertainment Tonight sýndi Shaq minnisvarðann um Kobe sem hann setti upp í stofunni heima hjá sér. Þar má sjá myndir af Shaq og Kobe á góðum stundum.

„Ég hugsa um hann á hverjum einasta degi og allir eru að gera frábærlega í að halda nafni hans á lofti,“ sagði Shaq.

Hann segist ekki enn hafa haft tækifæri til að tala við Vanessu Bryant, ekkju Kobes, en sendi henni góða kveðju.

„Vonandi veit hún að fjölskyldan mín verður alltaf með opinn faðminn fyrir hana. Vonandi kalla dætur þeirra mig Shaq frænda eins og börnin mín kölluðu hann Kobe frænda. Jafnvel þótt hann sé ekki lengur meðal vor verður hann alltaf með okkur,“ sagði Shaq.

Shaq og Kobe áttu ekki alltaf skap saman og deildu oft hart þegar þeir léku með Lakers. En þeir virtust hafa náð aftur saman og Shaq var einna þeirra sem flutti ræðu á minningarathöfninni um Kobe.

Bryant var 41 árs þegar hann lést í þyrluslysi 26. janúar ásamt dóttur sinni, Giönnu, og sjö öðrum í Kaliforníu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.