Körfubolti

Martin mættur til Valencia og var með grímuna í sjónvarpsviðtölum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í viðtölum við spænska fjölmiðla.
Martin Hermannsson í viðtölum við spænska fjölmiðla. Skjámynd/Valencia

Íslenski körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson er mættur til Valencia á Spáni þar sem hann mun spila á komandi körfuboltatímabili.

Spænskir fjölmiðlamenn tóku á móti Martin á flugvellinum en heimamenn búast við miklu af íslenska landsliðsmanninum eftir frábæra frammistöðu hans á síðustu leiktíð með Alba Berlin í Þýskalandi sem og í Euroleague.

Martin flaug í gegnum Frankfurt til að komast til Spánar en auðvitað eru mun færri flug í boði í miðjum kórónuveirufaraldri.

Martin gerði tveggja ára samning við Valencia með möguleika á þriðja árinu.

Martin tók heldur ekki niður grímuna fyrir viðtölin á flugvellinum en Valencia sýndi viðtal við Martin á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum.

„Aðalástæðan fyrir því að ég kom hingað er gott samtal sem ég átti við þjálfarann. Hann sýndi mér þar hversu bjartsýnn hann er á framtíðina hjá liðinu og hversu mikla trú hann hefur á mér. Hann telur að ég geti hjálpað Valencia liðinu,“ sagði Martin.

„Ég held að ég geti haldið áfram að bæta mig í þessu umhverfi. Bæði samherjar mínir og þjálfararnir eiga eftir að hjálpa mér að verða betri. Þessa vegna kom ég hingað,“ sagði Martin.

„Ég held að liðið verði gott en það er betra að láta verkin tala og setja ekki of mikla pressu á okkur. Valencia var í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Miðað við þá leikmenn sem eru komnir þá er engin ástæða til annars en að við getum komist aftur þangað. Við setjum stefnuna á að komast þangað og ef við komumst í úrslitakeppnina þá getur síðan allt gerst,“ sagði Martin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×