Körfubolti

Tómas Þórður: „Annaðhvort þetta eða vera áfram í Stjörnunni“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tómas Þórður í baráttunni gegn Tindastól í vetur. Hann mun nú berjast undir körfunni á Spáni.
Tómas Þórður í baráttunni gegn Tindastól í vetur. Hann mun nú berjast undir körfunni á Spáni. Vísir/Bára

Tómas Þórður Hilmarsson ræddi við Sportpakka Stöðvar 2 um félagaskipti sín til Spánar þar sem hann mun leika með Aquimisa Carbajosa á næstu leiktíð. Tómas Þórður átti gott tímabil með Stjörnunni er liðið varð deildarmeistari á síðustu leiktíð áður en tímabilið var blásið af.

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum neðst á fréttinni.

„Er ekki alveg viss hvernig deildin sjálf er en liðið er nýliði í deildinni, fóru taplausir í gegnum síðasta tímabil og þetta er mjög spennandi,“ sagði Tómas Þórður í Sportpakka Stöðvar 2 fyrr í kvöld.

„Þetta var allt í gegnum umboðsmann. Hann kom mér í samband við þá, þekkir til þarna og er með fleiri leikmenn í liðinu. Hann sagði mér bara góða hluti af liðinu, þjálfaranum og umgjörðinni. Mér leist vel á þetta og ákvað að slá til,“ sagði Tómas um aðdragandann að búferlaflutningum sínum til Spánar.

„Það var annað hvort þetta eða vera áfram í Stjörnunni. Maður er alltaf með plan B sem væri að koma heim. Þú veist ekkert hvenær þetta tækifæri kemur aftur þannig ég ákvað að slá til,“ sagði Tómas einnig um hvaða möguleikar hafi staðið honum til boða.

Tómas vonast til að leika erlendis næstu árin.

„Það væri gaman að halda áfram og geta tekið nokkur ár úti. Maður þarf að sjá hvernig þetta ár spilast og hvort það komi eitthvað meira.“

Að lokum var Tómas spurður hvort það væri ekki erfitt að kveðja heimaklúbbinn en hann er uppalinn hjá Stjörnunni þar sem hann spilaði stórt hlutverk á síðustu leiktíð. Tómas lék 21 leik með Stjörnunni og gerði að meðaltali 8.8 stig í leik ásamt því að taka 8.2 fráköst.

„Það er alveg erfitt. Maður getur alltaf komið heim aftur. Bara leiðinlegt hvað við erum með sterkt lið og gætum gert fína hluti á næsta tímabili. Þetta var ekkert auðvelt en svona er þetta.“

Klippa: Tómas Þórður: Annað hvort þetta eða vera áfram í Stjörnunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×