Viðskipti innlent

Edu og Marcos taka við af Sæmundi hjá Borgun

Andri Eysteinsson skrifar
Mannabreytingar hafa orðið hjá Borgun í kjölfar kaupa Salt Pay.
Mannabreytingar hafa orðið hjá Borgun í kjölfar kaupa Salt Pay. Borgun

Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar hefur ákveðið að stíga til hliðar og munu þeir Eduardo Pontes og Marcos Nunes taka sameiginlega við starfi forstjóra. Stjórn Borgunar gaf frá sér tilkynningu þess efnis í dag.

Breytingarnar í forystu fyrirtækisins sem á sér fjörutíu ára sögu verða í kjölfar þess að alþjóðlega greiðslumiðlunin Salt Pay hefur verið samþykkt af Seðlabanka Íslands sem nýr rekstraraðili Borgunar.

Markaðurinn greindi frá því í gær að kaupverðið hafi verið samtals 27 milljónir evra eða um 4,3 milljarðar króna fyrir 96% hlut í Borgun.  Lækkaði verðið því nokkuð frá undirritun kaupsamnings en þá var gengið útfrá því að kaupverð næmi 35 milljónum evra.

Sæmundur segist stoltur að hafa leitt fyrirtækið í gegnum breytingartímabil og kveðst ánægður um að Borgun fái eigendur sem ætla að byggja á öflugum grunni byggður hefur verið upp undanfarin ár.

„„Ég er ákaflega spenntur, fyrir hönd starfsfólks Borgunar, fyrir þessum næsta kafla þar sem ég veit að Salt Pay hyggst sækja fram af krafti á alþjóðavísu,“ segir Sæmundur.

Nýju forstjórarnir tveir, Eduardo Pontes og Marcos Nunes hafa báðir reynslu úr geiranum en Pontes starfaði áður sem forstjóri brasilísks fjártæknifyrirtækisins Stone Co og Nunes var framkvæmdastjóri alþjóðlegrar færsluhirðingar og ytri vaxtar hjá sænska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Bambora.

„Við ætlum að byggja upp öflugt félag á Íslandi sem geti orðið stökkpallur fyrir okkur til að þróa verðmætar lausnir fyrir söluaðila um alla Evrópu. Ekki aðeins í gegnum greiðslumiðlun heldur einnig með því að hjálpa söluaðilunum að vaxa og ná fram aukinni skilvirkni í rekstri sínum,“ segir Marcos Nunes annar af tveimur nýjum forstjórum Borgunar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×