Viðskipti innlent

OR dæmd til að greiða Glitni HoldCo 740 milljónir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Orkuveita Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1.
Orkuveita Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Vísir/vilhelm

Orkuveita Reykjavíkur (OR) var nú síðdegis í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd til að greiða Glitni HoldCo 740 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna uppgjörs afleiðusamninga sem gerðir voru við Glitni á árunum fyrir hrun. Málið hefur velkst um í dómskerfinu hátt í áratug. OR hyggst áfrýja dómnum til Landsréttar, að því er fram kemur í tilkynningu.

Aðdragandi málsins er langur og það má rekja allt til fyrstu vikna eftir efnahagshrunið 2008. OR var þó ekki stefnt fyrr en 2012 og dómur féll ekki fyrr en í dag, átta árum síðar.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna en í tilkynningu frá OR segir að dómurinn virðist ekki hafa tekið tillit til helstu sjónarmiða fyrirtækisins í málinu. Þau eru annars vegar að þrotabú Glitnis, sem stefndi OR, eigi ekki aðild að málinu þar sem slitastjórn bankans framseldi íslenska ríkinu kröfuna árið 2016.

„Þá var af hálfu OR lögð fyrir dóminn matsgerð þar sem niðurstaðan er sú að bankinn hafi í raun verið ógjaldfær þegar í janúar 2008 og samningarnir þá gjaldfallið,“ segir í tilkynningu.

OR hefur greint frá málaferlunum í ársreikningum fyrirtækisins og lagt til hliðar höfuðstól kröfu slitastjórnarinnar, 740 milljónir króna, sem varúðarfærslu. Dómsfjárhæðin kemur ekki til greiðslu fyrr en lokaniðurstaða dómstóla liggur fyrir, hvort sem það verður fyrir Landsrétti eða Hæstarétti. 

Samkvæmt upplýsingum frá OR liggur ekki fyrir hversu há heildarupphæðin er sem fyrirtækinu er gert að greiða, þ.e. 740 milljónir auk dráttarvaxta. Þó er um að ræða dráttarvexti frá 2008 svo upphæðin er umtalsverð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×