Skoðun

Minn forseti

Þorvaldur Daníelsson skrifar

Það eru svo sannarlega forréttindi okkar sem búum við lýðræði að fá að kjósa. Í pólitískum kosningum undanfarinna áratuga hef ég sjálfur kosið, að ég held, alla flokka sem hafa boðið fram á einhverjum tímapunkti. Hef haft það að leiðarljósi að kjósa frekar fólk en flokka, þann sem mér hefur þótt eiga atkvæðið mitt skilið.

Nú fáum við tækifæri til þess að kjósa okkur forseta. Í kosningabaráttunni 2016 heillaði Guðni Th. mig upp úr skónum með alþýðlegri og vinalegri framkomu, en ekki síst með kosningabaráttu sem byggði eingöngu á allt öðru en því að ata andstæðinga auri. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum að frambjóðendur hagi sér með þeim hætti. Það var áberandi á þeim tíma að Guðni Th. talaði mikið um æsku landsins, framtíðina, og að hann vildi gera henni hátt undir höfði. Það var mér því, sem forsprakka Hjólakrafts, gríðarlegur heiður að vera boðið að koma með hóp af krökkum í fyrstu opinberu heimsóknina sem boðið var til í forsetatíð Guðna þetta sumar. Í framhaldinu hef ég stundum haft samband við hann og fengið að koma með hópa af krökkum og unglingum og hann hefur komið og heilsað upp á hópana, en það sem stendur þó upp úr er að þegar ég hef leitað til hans vegna þess að ég hef verið á ferðinni kannski með einn einstakling, sem myndi klárlega teljast til okkar allra minnstu bræðra eða systra, hefur Guðni tekið jafn vel í erindið, komið út, spjallað, sýnt áhuga, komið með hvatningu til viðkomandi og hrós, boðið upp á myndatöku og allt það sem skiptir slíka einstaklinga máli.

Ég hef fylgst með störfum og lífi Guðna - og Elizu - og ég held að við getum leitað ansi langt í heiminum þangað til við finnum forseta sem ver heilu nóttunum í flatsæng í skólastofum eða íþróttahúsum með krökkum á íþróttamótum. Þetta skiptir alla sem eru nálægir máli - að finna að forsetinn sé einn af okkur öllum. Ekki uppskrúfuð persóna, heldur fyrst og síðast manneskja, rétt eins og við. Guðni Th. Jóhannesson er örugglega ekki fullkomin persóna, ekki frekar en nokkur einstaklingur annar, en með stolti segi ég að hann er #minnforseti og mér er heiður að því að fá að veita honum brautargengi á Bessastaði annað kjörtímabil. Helst vildi ég að hann yrði þar svo lengi sem hann lifir, en það er ekki öruggt. Ég hvet alla til þess að storma á kjörstað og nýta sér kosningaréttinn sinn, því það að fá að kjósa eru forréttindi og ástæðulaust að láta þau kyrr liggja.

Höfurndur er framkvæmdastjóri Hjólakrafts.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×